Kanadískur ökumaður sjálfkeyrandi Teslu-bifreiðar hefur verið ákærður fyrir háskalegan akstur fyrir að hafa sofið værum blundi á meðan bifreiðin þeysti áfram á yfir 140 km/klst.
Lögreglan í Alberta-fylki í Kanada segir að bæði framsæti bifreiðarinnar hafi verið hallað alla leið aftur og að ökumaður og farþegi hefðu virst sofandi í bílnum. BBC greinir frá.
Ökumaðurinn sem er tvítugur, mun þurfa að fara fyrir dómstól í desember. Hann var upphaflega ákærður einungis fyrir hraðakstur og sviptur ökuleyfi í sólarhring vegna þreytu en síðan fyrir hættulegan akstur.
Alberta RCMP received a complaint of a car speeding on Hwy 2 near #Ponoka. The car appeared to be self-driving, travelling over 140 km/h with both front seats completely reclined & occupants appeared to be asleep. The driver received a Dangerous Driving charge & summons for court pic.twitter.com/tr0RohJDH1
— RCMP Alberta (@RCMPAlberta) September 17, 2020
Bifreiðin er sögð hafa verið á 140 km/klst en aukið hraðann í 150 km/klst þegar lögreglubifreið kveikti neyðarljós og hóf eftirför. Tesla-bifreiðar eru á svokallaðri annars stigs sjálfstýringu, sem krefst þess að ökumaður sé á varðbergi, með hendur á stýri og tilbúinn að grípa inn í aðstæður ef þarf.
„Enginn var að horfa út um bílrúðurnar til að horfa á hvert bifreiðin var að fara. Ég hef verið lögreglumaður í rúmlega 23 ár, meirihluta þeirra ára í umferðardeild, og ég er orðlaus. Ég hef aldrei séð nokkuð þessu líkt áður, en það var auðvitað ekki hægt því tæknin var ekki til staðar,“ sagði yfirlögregluþjónninn Darri Turnbull í viðtali við CBS News.