Kínverskir tölvuþrjótar eru sagðir hafa brotist inn í tölvukerfi spænskra rannsóknarsetra og stolið þaðan upplýsingum um prófanir á bóluefni gegn kórónuveirunni. Hvorki er ljóst hvaða upplýsingum var stolið né hversu mikilvægar þær kunna að vera.
Talsmaður spænsku leyniþjónustunnar, Paz Esteban, segir að tölvuþrjótarnir hafi gert fólskulega árás á spænskar rannsóknarstofur en einnig á aðila annars staðar í heiminum, sem standa í þróunum á bóluefnum gegn kórónuveirunni. Hann segir að tölvuárásir á heilbrigðisstofnanir, lyfjafyrirtæki og rannsóknarstofur um allan heim hafi aukist eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst.
Esteban segir að leyniþjónustur um allan heim hafi tekið höndum saman og deili nú upplýsingum um tölvuárásir sem gerðar eru á aðila sem tengjast bóluefnaþróun. Borið hafi bæði á árásum frá rússneskum og kínverskum yfirvöldum en einnig frá glæpasamtökum og jafnvel háskólum sem stunda viðskipti með stolnum upplýsingum.