Repúblikanar ákveðnir í að skipa arftaka Ginsburg

Mitch McConnell, forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings, virðist ekki ætla að fallast …
Mitch McConnell, forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings, virðist ekki ætla að fallast á eigin rök sem hann setti fram árið 2016 þegar repúblikanar komu í veg fyrir að kosið yrði um útnefningu Barack Obama. AFP

Mitch McConn­ell, leiðtogi re­públi­kana í öld­unga­deild Banda­ríkjaþings, hef­ur heitið því að kosið verði um þann sem Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti mun til­nefna sem næsta dóm­ara við Hæsta­rétt Banda­ríkj­anna.

Þetta til­kynnti McConn­ell ein­ung­is nokkr­um klukku­stund­um eft­ir að til­kynnt var and­lát Ruth Bader Gins­burg og mis­bauð mörg­um demó­kröt­um sem þótti það ósmekk­legt. McConn­ell sagði að hann myndi bregðast hratt við þrátt fyr­ir að ein­ung­is væru um sex vik­ur til for­seta­kosn­inga. BBC grein­ir frá. 

Re­públi­kan­ar í öld­unga­deild komu í veg fyr­ir að Barack Obama, þáver­andi Banda­ríkja­for­seti, fengi sínu fram­gengt árið 2016 þegar hann til­nefndi Merrick Garland sem hæsta­rétt­ar­dóm­ara. Rök­in þá voru að það væri of stutt í kosn­ing­ar og að til­nefna þyrfti í embættið að lokn­um kosn­ing­um. Þegar Obama til­nefndi Garland voru 237 dag­ar í kosn­ing­ar.

Joe Biden, for­setafram­bjóðandi demó­krata og fyrr­ver­andi vara­for­seti Banda­ríkj­anna, er einn þeirra sem vilja að til­nefn­ing­in fari ekki fram fyrr en eft­ir kosn­ing­arn­ar.

Gins­burg lést í gær, 87 ára að aldri, eft­ir bar­áttu við krabba­mein. Í kjöl­far þess að and­lát henn­ar var til­kynnt safnaðist fjöldi fólks sam­an fyr­ir utan Hæsta­rétt Banda­ríkj­anna til að votta virðingu sína.

Fari svo að re­públi­kan­ar fái sitt fram er ljóst að íhalds­sam­ir dóm­ar­ar við rétt­inn yrðu í meiri­hluta, sex á móti þrem­ur, sem gæti haft mik­il áhrif á dóma­fram­kvæmd. Trump hef­ur þegar út­nefnt tvo dóm­ara síðan hann tók við embætti.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert