Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, hefur heitið því að kosið verði um þann sem Donald Trump Bandaríkjaforseti mun tilnefna sem næsta dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna.
Þetta tilkynnti McConnell einungis nokkrum klukkustundum eftir að tilkynnt var andlát Ruth Bader Ginsburg og misbauð mörgum demókrötum sem þótti það ósmekklegt. McConnell sagði að hann myndi bregðast hratt við þrátt fyrir að einungis væru um sex vikur til forsetakosninga. BBC greinir frá.
Repúblikanar í öldungadeild komu í veg fyrir að Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, fengi sínu framgengt árið 2016 þegar hann tilnefndi Merrick Garland sem hæstaréttardómara. Rökin þá voru að það væri of stutt í kosningar og að tilnefna þyrfti í embættið að loknum kosningum. Þegar Obama tilnefndi Garland voru 237 dagar í kosningar.
Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, er einn þeirra sem vilja að tilnefningin fari ekki fram fyrr en eftir kosningarnar.
Ginsburg lést í gær, 87 ára að aldri, eftir baráttu við krabbamein. Í kjölfar þess að andlát hennar var tilkynnt safnaðist fjöldi fólks saman fyrir utan Hæstarétt Bandaríkjanna til að votta virðingu sína.
Fari svo að repúblikanar fái sitt fram er ljóst að íhaldssamir dómarar við réttinn yrðu í meirihluta, sex á móti þremur, sem gæti haft mikil áhrif á dómaframkvæmd. Trump hefur þegar útnefnt tvo dómara síðan hann tók við embætti.