„Við munum hafa kandídat mjög fljótlega. Það verður líklegast kona,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti við fjölmiðlamenn spurður um hvern hann ætlaði að tilnefna í embætti hæstaréttardómara í stað Ruth Bader Ginsburg, sem lést í gær.
Andlát Ginsburg felur í sér tækifæri fyrir Donald Trump Bandaríkjaforseta til að bæta enn í íhaldsöflin og tilnefna íhaldssaman hæstaréttardómara í hennar stað, að sögn Eiríks Bergmanns stjórnmálafræðings.
„Hæstiréttur Bandaríkjanna er með mjög pólitískt hlutverk sem er náttúrlega gjörólíkt íslensku réttarkerfi. Í réttinum skiptast dómarar eftir pólitískum línum og Ginsburg hefur verið fulltrúi frjálslyndustu afla í dóminum,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.
Íhaldsmenn hafa nauman meirihluta í hæstarétti en öldungadeild þingsins verður að samþykkja tilnefningu Donalds Trumps og er líklegt að það verði raunin, þar sem repúblikanar hafa meirihluta á þingi.
„Það er spurning hvort andstæðingnum tekst að beita málþófi en þó er það aðeins flóknara. Þá fer þetta aðallega eftir því hvort einhverjir þingmenn repúblikana hlaupist undan merkjum og taki þátt í að tefja málið. Það er spurningin sem út af stendur,“ segir Eiríkur.
Allt stefnir í að Trump tilnefni íhaldssaman dómara og hafa ýmis nöfn verið á lofti en enginn hefur sérstaklega verið orðaður við embættið enn sem komið er.