Hið minnsta tíu eru látnir og 25 er saknað eftir að þriggja hæða íbúðarhúsnæði hrundi snemma á mánudagsmorgun í vesturhluta Indlands.
Slysið varð um klukkan 3:40 í morgun að staðartíma í borginni Bhiwandi. „Tíu eru látnir, við höfum náð að bjarga 11 lifandi,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir björgunaraðila.
Um 40 viðbragðsaðilar reyna nú að bjarga fleirum úr rústum húsnæðisins, en talið er að á bilinu 20 til 25 séu fastir í rústunum.
Óljóst er hvað olli hruninu, en ekki er óalgengt að illa byggð húsnæði á Indlandi hrynji á þessum árstíma vegna mikilla rigninga.