Kínverskur auðjöfur, sem kallaði Xi Jinping forseta landsins trúð og gagnrýndi viðbrögð hans í upphafi kórónuveirufaraldursins, var í morgun dæmdur í 18 ára fangelsi. Hann var fundinn sekur um spillingu, mútuþægni og fjárdrátt úr sjóðum ríkisins.
Mannréttindasamtök saka Xi og Kommúnistaflokkinn um upplognar spillingarkærur til að þagga niður í gagnrýnisröddum enda ekki í fyrsta sinn sem menn stjórnvöldum andsnúnir eru dæmdir til fangelsisvistar fyrir aðrar sakargiftir.
Maðurinn, Ren Zhiqiang, var áður meðal innstu koppa í búri kínverska Kommúnistaflokksins og gegndi eitt sinn stöðu stjórnarformanns hjá ríkisrekna verktakafyrirtækinu Huayuan Group.
Hann hvarf sporlaust í mars, stuttu eftir að hann gaf út grein þar sem hann fór hörðum orðum um framgöngu ríkisstjórnarinnar í faraldrinum. Í apríl hóf „aganefnd“ Kommúnistaflokksins síðan rannsókn á meintri spillingu Ren sem lauk með því að ákæra var lögð fram og dómsmál hófst í síðustu viku.
Í dómnum, sem kveðinn var upp í morgun, segir að Ren hafi dregið sér nærri 50 milljónir yuana, um milljarð króna, af almannafé og tekið við mútum upp á 1,25 milljónir yuana (25 m.kr.). Var honum auk fangelsisdóms gert að greiða 4,2 milljónir yuana (84 m.kr.) sekt. Þá segir í dómnum að Ren hafi „af frjálsum vilja“ játað alla glæpi sína og að hann muni ekki áfrýja dómnum.
„Þessi faraldur hefur sýnt að Flokkurinn og embættismenn hugsa aðeins um að verja eigin hagsmuni, og einvaldurinn hugsar aðeins um þeirra hagsmuni og stöðu,“ er meðal þess sem segir í greininni, en þar vísar Ren að öllum líkindum til Xi Jinping, forseta Kína, sem einvaldsins án þess að nefna hann á nafn. „Þarna fór ekki keisari í nýjum fötum heldur trúður án klæða sem krafðist þess að vera keisari.“
Greininni var deilt á netinu, en hefur síðar verið fjarlægð af kínverska netinu. Hér má nálgast enska þýðingu greinarinnar, fyrir lesendur sem ekki búa í Kína.