Höfða mál á hendur yfirvöldum í Ischgl

Bærinn Ischgl í Týrol í Austurríki. Þar smituðust 16 Íslendingar …
Bærinn Ischgl í Týrol í Austurríki. Þar smituðust 16 Íslendingar af kórónuveirunni. AFP

Neytendasamtök í Austurríki greindu frá því í dag að þau hefðu höfðað mál á hendur austurrískum stjórnvöldum vegna meðhöndlunar þeirra á útbreiðslu kórónuveirunnar á skíðasvæðinu í Ischgl í febrúar. Farið er fram á bætur upp á 100.000 evrur (16 m.kr.).

Peter Kolba, formaður neytendasamtakanna VSV, sagði á blaðamannafundi í dag að málin væru alls fjögur og væru sótt fyrir hönd fjögurra einstaklinga sem hefðu smitast á skíðasvæðinu. Sagði hann að þau væru aðeins þau fyrstu af mörgum, en meðal annars hafa samtökin boðað stóra hópmálsókn og sagði Kolba í samtali við mbl.is í maí að sjö Íslendingar væru aðilar að þeirri málsókn.

Útbreiðsla faraldursins á skíðasvæðinu í Ischgl er landsmönnum að góðu kunn en 16 af 25 Íslendingum sem voru þar í skíðaferðalagi í þremur hópum, smituðust af veirunni. Yfirvöld í Tíról-héraði, þar Ischgl er, hafa verið sökuð um að hafa vísvitandi haft hljótt um útbreiðslu faraldursins á skíðasvæðunum í febrúar og mars og þar með sett efnahag svæðisins ofar heilsu gesta sinna.

Í frétt Reuters segir að fyrsta tilfelli veirunnar í Ischgl hafi ekki greinst fyrr en 7. mars, en þá hafi íslensk stjórnvöld nokkrum dögum áður staðfest smit hjá fólki sem hafði dvalið á svæðinu. Hafa ráðamenn verið sakaðir um að bregðast seint við og hunsa jafnvel viðvaranir frá íslenskum yfirvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert