Hundar þefa veiruna uppi í Helsinki

Einn af hundunum sem þefar fyrir veirunni heitir E.T. Hér …
Einn af hundunum sem þefar fyrir veirunni heitir E.T. Hér fær hann klór frá Anette Kare hundaþjálfara á flugvellinum í Helsinki. AFP

Nokkrir hundar sem starfa nú á Helsinki flugvelli í Finnlandi hafa verið þjálfaðir til að greina veiruna með lyktarskyni sínu. Ferðamenn sem fara í gegn um Helsinki hafa kost á að fara í kórónuveirupróf við komuna sem tekur tíu sekúndur og felur ekki í sér óþægindi sýnatöku í gegnum nef og munn. Prófið er, eins og glöggir lesendur hafa eflaust áttað sig á, framkvæmt af ferfætlingi, hundi. New York Times greinir frá. 

Hundarnir hófu störf í dag og er um að ræða tilraunaverkefni sem miðar að því að greina veiruna í svita sem safnað er í þurrkur frá farþegum. 

Síðustu mánuði hafa alþjóðaflugvellir komið með ýmsar aðferðir til að greina veiruna á meðal ferðamanna, þar á meðal munnvatnsskimun, hitamælingum og sýnatöku í gegnum nef. Vísindamenn í Finnlandi segja að notkun hunda gæti reynst ódýrari, hraðari og vænlegri til árangurs. 

Lykta af svitaþurrkum í kassa

Eftir að farþegar hafa sótt farangur sinn er þeim boðið að þurrka á sér hálsinn til að safna svitasýnum og skilja þurrkurnar eftir í kassa. Á bak við vegg setur hundaþjálfari kassann við hliðina á dósum sem innihalda mismunandi lykt og hundurinn hefst handa við að þefa af þeim. 

Hundarnir geta greint smitaðan ferðamann á 10 sekúndum og tekur ferlið í heild 10 mínútur. Ef hundurinn gefur til kynna að farþeginn sé smitaður er honum vísað á heilsugæslustöð flugvallarins hvar hann hefur kost á að undirgangast frítt veirupróf. 

Kössi (t.v.) og Miina (t.h.) ásamt Susönnu Paavilainen á flugvellinum.
Kössi (t.v.) og Miina (t.h.) ásamt Susönnu Paavilainen á flugvellinum. AFP

Ná að þefa veiruna uppi hjá einkennalausum

Hundar hafa sérstaklega næmt lyktarskyn og hafa lengi þefað uppi sprengjur, eiturlyf og annan bannaðan varning í faraldri. Hundar hafa sömuleiðis verið færir um að greina veikindi, t.a.m. krabbamein og malaríu. Í miðjum heimsfaraldri virðist þjálfun hunda til að þefa veiruna uppi vera augljós valkostur, að sögn Önnu Hielm-Bjorkman, vísindamanns hjá Háskólanum í Helsinki sem fer fyrir rannsókninni. 

Hundunum virðist vera að takast ætlunarverkið, að sögn Önnu. Á fyrsta stigi rannsóknarinnar gátu hundarnir þefað smit uppi hjá einstaklingi sem er einkennalaus eða jafnvel áður en einkennin koma í ljós. Hundarnir greindu smit fyrr en hefðbundið PCR-veirupróf sem er algengasta veiruprófið þegar kemur að kórónuveiru og er meðal annars notað hérlendis. 

Ólíklegt að hundarnir veikist

Í júlí komust vísindamenn í Dýralæknaháskólanum í Hannover í Þýskalandi að því að með vikulangri þjálfun gætu hundar greint munnvatnssýni smitaðra frá munnvatnssýnum ósmitaðra í 94% tilvika. 

Hundar virðast ekki smitast auðveldlega af kórónuveirunni þó þeir virðist hafa smitast í nokkrum tilvikum. Önnur dýr, til dæmis kettir, virðast vera mun líklegri til að smitast. Engar vísbendingar eru um að hundar fái einkenni eða geti smitað fólk eða dýr af kórónuveirunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert