Forsetakosningarnar endi fyrir Hæstarétti

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist búast við að forsetakosningarnar, sem fram fara í nóvember, endi fyrir Hæstarétti og því sé mikilvægt að búið verði að tilnefna níunda dómarann við réttinn áður en þar að kemur.

Þetta sagði Trump á blaðamannafundi í gær og réttlætti þar ákvörðun sína um að láta öldungadeild þingsins kjósa um arftaka dómarans Ruth Bader Ginsburg sem fyrst, og áður en gengið verður til forsetakosninga.

„Ég held að það sé betra að gera það fyrir kosningar, því þetta svindl sem demókratar eru að reyna, það er svindl. Það er svindl sem mun enda fyrir Hæstarétti,“ sagði forsetinn.

Vísaði hann þar til fyrri ummæla sinna um að meiri hætta skapaðist á kosningasvindli eftir því sem fleiri greiddu atkvæði með pósti, en búist er við mikilli aukningu póstatkvæða vegna kórónuveirufaraldursins og er Trump sjálfur meðal þeirra sem hefur þegar greitt atkvæði með pósti.

Í fimm ríkjum Bandaríkjanna verður aðeins hægt að greiða atkvæði með pósti í forsetakosningunum. Ellen Weintrub, yfirmaður landskjörstjórnar Bandaríkjanna, hefur sagt að enginn grundvöllur sé fyrir þeirri „samsæriskenningu“ að póstatkvæði auki hættu á svindli.

Vill ekki lofa að hann viðurkenni ósigur

Á blaðamannafundinum var Trump spurður hvort hann myndi viðurkenna úrslit kosninganna hver sem þau yrðu. „Við verðum að sjá hvað gerist. Þú veist það,“ svaraði forsetinn þá. „Ég hef kvartað sáran undan þessum kjörseðlum. Og kjörseðlarnir eru stórslys,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert