Árás við fyrrum höfuðstöðvar franska tímaritsins Charlie Hebdo, þar sem maður særði tvo alvarlega með kjötexi, er rannsökuð sem manndrápstilraun tengd hryðjuverkasamtökum, auk þess sem árásarmaðurinn er grunaður um samráð við hryðjuverkamenn.
Þrjár vikur eru síðan réttarhöld hófust yfir 14 manns sem grunaðir eru um aðild að hryðjuverkaárásinni á Charlie Hebdo árið 2015 þar sem 12 létust og hefur tímaritið af því tilefni endurbirt nokkrar skopteikningar af Múhammeð spámanni.
Samkvæmt lögreglunni í París eru tveir alvarlega slasaðir eftir árásina í dag, sem eins og áður segir átti sér stað við gömlu höfuðstöðvar Charlie Hebdo, en staðsetningu núverandi skrifstofu tímaritsins er haldið leyndri.
Starfsfólki tímaritsins hafa borist hótanir vegna endurbirtinga skopmyndanna af Múhammeð spámanni og hefur mannauðsstjóri Charlie Hebdo meðal annars neyðst til að yfirgefa heimili sitt vegna hótananna, að því er BBC greindi frá fyrr í vikunni.