Donald Trump Bandaríkjaforseti greiddi einungis 750 Bandaríkjadollara í skatta árið 2017, því sem jafngildir rétt rúmlega 100 þúsund krónum. Þetta kemur fram í skattskýrslum forsetans sem New York Times hefur undir höndum.
Samkvæmt skýrslunni greiddi forsetinn engan tekjuskatt á ellefu af þeim átján árum sem Times tók til skoðunar.
Í umfjöllun New York Times kemur meðal annars fram að Trump hafi fengið rétt tæplega 73 milljóna Bandaríkjadollara endurgreiðslu frá skattinum vegna gríðarlegs tekjutaps. Endurgreiðslan er nú til rannsóknar hjá bandarískum skattayfirvöldum.
Þá kemur einnig fram að ýmis viðskipti sem forsetinn hefur farið í, meðal annars uppbygging golfvalla, hefur valdið honum gríðarlegu tapi, tapi sem hefur að sögn Times komið sér vel fyrir forsetann við skattaframtal.
Þá kemur fram í umfjölluninni að lán upp á fleiri hundruð milljónir dollara, sem forsetinn ber persónulega ábyrgð á, falli á gjalddaga á næstunni. Þrátt fyrir gríðarlegt tap Trump hefur hann í fleiri áratugi haldið uppi lífstíl sínum með því að sækja um skattafrádrátt á því sem flestir myndu telja til framfærslu, meðal annars húsnæði, flugvélar og hárgreiðslu fyrir sjónvarpsþætti.
Þá kemur einnig fram í umfjöllun New York Times að Trump hafi á forsetatíð sinni tekið við meira fjármagni frá erlendum aðilum og samtökum en áður hefur þekkst.
Í umfjölluninni er einnig bent á að skattskýrslurnar gefi einungis þá mynd af viðskiptum og fjárhagsstöðu Trump sem hann hefur sjálfur haldið fram.