Dauðsföll á heimsvísu af völdum kórónuveirunnar eru nú orðin fleiri en ein milljón. Veiran fór fyrst að láta á sér bera fyrir tæpu einu ári síðan.
Flest dauðsföll hafa orðið í Bandaríkjunum eða fleiri en 200.000 talsins. Næstflest eru dauðsföllin í Brasilíu, svo Indlandi, Mexíkó og Bretlandi.
Flest smit hafa einnig greinst í Bandaríkjunum en næstflest tilfelli hafa greinst á Indlandi. Þar er faraldurinn í örum vexti.
Staðfest smit á Indlandi nálgast sex milljónir en 88.600 ný smit voru tilkynnt þar í landi í dag og opinberar tölur leiða í ljós að 5.992.532 tilfelli veirunnar hafa komið upp þar í landi. Tilkynnt var um 1.124 dauðsföll á Indlandi í dag og eru þau nú orðin 94.503 talsins.
Eins og mbl.is hefur áður greint frá hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) varað við því að talsvert líklegt sé að fórnarlömb kórónuveirufaraldursins verði tvær milljónir ef ekki verður gripið til vægðarlausra aðgerða á heimsvísu.
Stofnunin segir ekki óhugsandi að önnur milljón bætist við ef ríki og einstaklingar komi sér ekki saman um að takast á við faraldurinn.
„Ein milljón er hrikaleg tala og við þurfum að velta henni fyrir okkur áður en við förum að íhuga aðra milljónina,“ sagði yfirmaður neyðarmála hjá WHO, Michael Ryan, spurður um hvort óhugsandi væri að dauðsföll næðu tveimur milljónum.
Lifandi fréttastreymi Guardian um COVID-19