Washington Post styður Biden

Joe Biden, forsetaefni demókrata í Bandaríkjunum.
Joe Biden, forsetaefni demókrata í Bandaríkjunum. AFP

Bandaríska dagblaðið Washington Post hefur lýst yfir stuðningi við Joe Biden, frambjóðanda demókrata, í forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem fram fara í byrjun nóvember.

Þetta kemur fram í leiðara blaðsins í dag. Þar segir að varaforsetinn fyrrverandi sé leiðtogi „sóma, heiðurs og færni“ og sé þannig  algjör andstæða mótframbjóðanda síns, Donalds Trumps forseta.

„Margir Bandaríkjamenn gætu verið til í að kjósa næstum hvað sem er til þess að losna við versta forseta síðari tíma,“ segir í leiðaranum, þar sem rakin eru meint afglöp forsetans í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn og aðför hans að lýðræðislegum gildum.

„Sem betur fer þurfa kjósendur ekki að lækka kröfur sínar til að losna við Trump,“ segir enn fremur. „Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, er einstaklega hæfur í embættið, reynslumikill og góður persónuleiki.“

Hefð er fyrir því að ritnefndir dagblaða í Bandaríkjunum lýsi opinberlega yfir stuðningi við forsetaframbjóðanda annars stærstu flokkanna stuttu fyrir kosningar. Fram til aldamóta var þó fremur fátítt að Washington Post styddi forsetaframbjóðanda, en síðan þá hefur blaðið í auknum mæli látið afstöðu sína í ljós. Er þetta í níunda sinn sem Washinton Post lýsir yfir stuðningi við forsetaframbjóðanda demókrata, en aldrei hefur repúblikani notið stuðnings blaðsins.

Stuðningurinn þarf vart að koma á óvart enda hafa ritstjórn blaðsins og Trump forseti eldað grátt silfur síðustu ár og Trump ítrekað kallað dagblaðið „falsfréttamiðil“. Á móti hefur dagblaðið haldið úti staðreyndavakt þar sem haldið er utan um fullyrðingar stjórnmálamanna og sannleiksgildi þeirra kannað. Má þar finna um 20.000 rangar eða misvísandi fullyrðingar frá forsetanum.

Af óvæntari stuðningsyfirlýsingum við forsetaframboð Joe Biden má nefna að Hollywood-leikarinn vöðvastælti Dwayne Johnson, the Rock, lýsti í gær yfir stuðningi við Biden. Rock skilgreinir sig sjálfur sem miðjumann í pólitík sem hafi í gegnum tíðina kosið forsetaframbjóðendur úr báðum flokkum. Þannig studdi hann til að mynda George Bush opinberlega á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert