Karlmaður sem særði fjóra, þar af tvo alvarlega, í árás í París í síðustu viku hefur verið ákærður fyrir „tilraun til manndráps með tengingu við hryðjuverkasamtök“. Frá þessu greindi hryðjuverkasaksóknari í París í dag.
Maðurinn, Zaheer Hassa Mehmood, sem fæddur er í Pakistan hefur viðurkennt að hafa logið að lögreglu er hann þóttist vera 18 ára gamall og hafa komið til landsins í barnæsku. Upp komst um hann þegar lögregla fór í gegnum myndir í síma hans, þar sem sjá mátti skilríki með réttu nafni. Maðurinn hefur síðan játað að vera í raun 25 ára gamall, hafa komið til landsins undir fölsku flaggi árið 2018 og þegið bætur ætlaðar börnum á flótta.
Árásin var gerð skammt frá fyrrum húsakynnum skopmyndablaðsins Charlie Hebdo. Maðurinn réðst á fjóra með kjötexi og særði tvo þeirra alvarlega. Báðir liggja enn á spítala og er ástand þeirra stöðugt.
Árásarmaðurinn hefur játað verknaðinn og segist hafa látið til skarar skríða vegna endurbirtingar skopmyndablaðsins Charlie Hebdo á myndum af Múhammeð spámanni.