Fara fram á 13 ára fangelsi yfir Gunnari

Dómshúsið í Mehamn.
Dómshúsið í Mehamn. Ljósmynd/Andrea Dahl/iFinnmark

Saksóknari í Mehamn-málinu, Torstein Lindquister, fór í morgun fram á að Gunnar Jóhann Gunnarsson yrði dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir að hafa banað Gísla Þór Þórarinssyni 27. apríl í fyrra. Lokadagur aðalmeðferðar stendur nú yfir í Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø í Noregi.

Torstein Lindquister bað þá sem voru viðstaddir réttarhöldin um að horfa fram hjá framburði Gunnars um að skot hefði hlaupið af fyrir slysni úr haglabyssunni og grandað hálfbróður hans. 

Gunnar Jóhann Gunnarsson játaði sig í síðustu viku sekan um manndráp af gáleysi, ekki ásetningi eins og ákæran hljóðar upp á, og játaði sök í öllum öðrum ákæruliðum, líflátshótunum, húsbroti á heimili hálfbróður síns, stuldi á bifreið hans og akstri undir áhrifum. Gerði Gunnar Jóhann ítarlega grein fyrir líðan sinni síðustu dagana fyrir voðaatburðinn og sagði svo frá því hvernig hann hefði farið um borð í bát sem hann hefði haft aðgang að og sótt þar tvíhleypta haglabyssu af hlaupvíddinni 12 ga. áður en hann hélt á heimili hálfbróður síns á sjötta tímanum um morguninn og beið hans þar.

„Strákarnir sögðu við mig: „Gunnar, í kvöld skulum við bara drekka,“ og ég var svo sáttur við það, ég vildi bara drekka mig fullan og geta gleymt ástandinu í bili. Við fórum svo út, fórum á skemmtistaði en það var bara enginn úti að skemmta sér þetta kvöld. Svo þegar við komum á Nissen-barinn [í Mehamn] helltist þetta allt yfir mig aftur, ég fór að hugsa um hvernig bróðir minn gæti gert mér þetta. Og þá ákvað ég að fara heim til hans og hræða hann,“ sagði Gunnar á mánudaginn í síðustu viku, eins og mbl.is greindi frá.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert