Bæjarstjórinn í Ischgl með stöðu grunaðs manns

Austurríski skíðabærinn Ischgl.
Austurríski skíðabærinn Ischgl. AFP

Ríkissaksóknari í Austurríki segir að fjórir séu með stöðu grunaðs manns í tengslum við viðbrögð við kórónuveirusmitum á nokkrum vinsælum skíðasvæðum í landinu snemma í mars.

Yfir sex þúsund ferðamenn frá 45 löndum, þar á meðal Íslandi, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum, eru taldir hafa komist í snertingu við veiruna á meðan þeir voru í skíðafríi í Tíról-héraði. Flestir þeirra voru á skíðasvæðinu Ischgl en svæðið er þekkt fyrir fjörlegt skemmtanalíf að loknum skíðadegi (aprés-ski).

Í umfjöllun Guardian nýverið er full­yrt að sex­tán af 25 Íslend­ing­um sem dvöldu í þrem­ur hóp­um í Ischgl hafi smit­ast af veirunni. Eins og mbl.is hef­ur áður greint frá eru sjö Íslend­ing­ar í hópi nærri 6.000 manna sem boðað hafa hóp­mál­sókn gegn stjórn­völd­um í Tíról.

Vin­sæll skíðabar, Kitzloch, er tek­inn sem dæmi þar sem veir­an …
Vin­sæll skíðabar, Kitzloch, er tek­inn sem dæmi þar sem veir­an fékk að leika laus­um hala. AFP

Vin­sæll skíðabar, Kitzloch, er tek­inn sem dæmi þar sem veir­an fékk að leika laus­um hala. Bar­inn hef­ur vakið mikla at­hygli sök­um barþjóns sem reynd­ist sýkt­ur en hann smitaði lík­lega fjölda gesta með því að blása í flautu sem hann bar um háls­inn til að kom­ast að með drykki þegar bar­inn var þétt set­inn. Íslend­ing­ur tel­ur sig til að mynda vera á meðal þeirra sem smituðust af barþjón­in­um. 

Skrifstofa saksóknara í höfuðstað héraðsins, Innsbruck, staðfestir við AFP-fréttastofuna að eftir ítarlega skoðun beinist nú rannsóknin að fjórum manneskjum. Alls eru rannsóknargögnin yfir tíu þúsund blaðsíður. Ekki var hægt að fá nöfn þeirra uppgefin hjá embættinu. 

Einkum er horft til þess hvernig var staðið að brottflutningi fólks frá Ischgl sem og sóttkví í Paznauntal-dal, segir Hansjoerg Mayr sem starfar hjá embætti ríkissaksóknara.

Ferðamenn hafa sakað yfirvöld í héraðinu um að hafa látið hjá líða að tilkynna um útbreiðslu COVID-10 á skíðasvæðunum og eins hvernig staðið var að því að koma fólki í burtu þegar loksins var tilkynnt um smitin. Mikil skelfing greip um sig meðal fólks sem tróðst inn í almenningssamgöngutæki þar sem fólk var hóstandi og hnerrandi hvað ofan í annað.

Austurríska ríkissjónvarpið, ORF, segir að meðal þeirra sem eru til rannsóknar sé bæjarstjórinn í Ischgl, Werner Kurz, ásamt svæðisstjóranum í Landeck, Markus Maass, sem annast Ischgl. Auk þeirra séu tveir embættismenn til viðbótar til rannsóknar. ORF vísar í ónafngreindar heimildir í fréttinni en þeir séu til rannsóknar fyrir að hafa vísvitandi virt að vettugi ráðstafanir til að draga úr hættu á smiti. 

Nokkrum dögum eftir að yfirvöld fengu upplýsingar um smit á bar í Ischgl tilkynnti kanslari Austurríkis, Sebastian Kurz, að allur dalurinn yrði settur í sóttkví og að þær þúsundir ferðamanna sem þar voru fengju klukkutíma til að koma sér á brott. Þetta var 13. mars.

Gríðarleg ringulreið skapaðist og að sögn ferðafólks tók það allt að sjö klukkustundir að komast 7 km leið með yfirfullum rútum til Innsbruck. Þar kröfðust yfirvöld þess að fólk skrifaði undir yfirlýsingu um að það myndi halda heim til sín án þess að leggja lykkju á leið sína.

Ekki voru tekin sýni hjá neinum og talið er að þúsundir ferðamanna hafi dreift veirunni um Evrópu á sama tíma og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafði ekki lýst því yfir að um farsótt væri að ræða.

Tveim­ur dög­um eft­ir að ís­lensk yf­ir­völd skil­greindu Ischgl sem háá­hættu­svæði fengu yf­ir­völd í Tíról lækna til að skima fyr­ir veirunni í bæn­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert