Japanskur maður hefur játað að hafa myrt níu manns eftir að hafa tengst þeim á samskiptavefnum Twitter.
Takahiro Shiraishi, sem gengur undir heitinu „Twitter morðinginn“ var handtekinn árið 2017 eftir að líkamshlutar fundust í íbúð hans. Hann sagði fyrir rétti í gær að ásakanir á hendur honum væru allar réttar og sannar.
Verjendur hans fara fram á mildun refsingar þar sem fórnarlömb hans hafi öll viljað deyja. Ef Shiraishi verður dæmdur fyrir morð á hann yfir höfði sér dauðarefsingu.
Í frétt BBC kemur fram að hann hafi sett upp reikning á Twitter í mars 2017 til þess að komast í samband við konur sem voru í sjálfsvígshugleiðingum. Taldi hann þær vera auðvelt skotmark. Átta af fórnarlömbum hans voru konur og sú yngsta aðeins 15 ára gömul. Tvítugur karlmaður var drepinn eftir að hafa gengið á Shiraishi um hvar unnusta hans væri.
Takahiro Shiraishi, sem er 29 ára gamall, er talinn hafa tælt konurnar með því að segja þeim að hann gæti veitt þeim dánaraðstoð og í einhverjum tilvikum heitið því að taka eigið líf með þeim.