Bar eld að sjálfri sér í mótmælaskyni

Irina Slavina var ötull andspyrnumaður rússneskra stjórnvalda.
Irina Slavina var ötull andspyrnumaður rússneskra stjórnvalda. Ljósmynd/Facebook

Irina Slavina, ritstjóri rússneska miðilsins KozaPress, er látin eftir að hafa borið eld að sjálfri sér. Það gerði hún fyrir framan útibú rússneska innanríkisráðuneytisins í borginni Nizhniy Novgorod, til þess að mótmæla aðför rússneskra stjórnvalda að tjáningafrelsi þar í landi. Rússnesk yfirvöld hafa ekkert viljað tjá sig um málið enn.

Irina hafði skömmu áður skrifað á facebooksíðu sína „Ég bið ykkur um að kenna rússneskum yfirvöldum um dauða minn.“ Þá gerði rússneska lögreglan nýverið húsleit á heimili Irinu í tengslum við rannsókn lögreglu á lýðræðissinnuði samtökunum Opið Rússlands (e. Open Russia).

Myndband sem sýnir mann koma hlaupandi að Irinu og reyna að slökkva í henni hefur farið víða um netheima síðastliðna klukkutíma. Á myndbandinu sést hvernig Irina ýtir manninum frá áður en hún fellur í yfirlið enn í ljósum logum.

Enn á eftir að sannreyna hvort myndbandið sé ósvikið að því er fram kemur í frétt BBC um málið.

Hafði áður gagnrýnt stjórnvöld

Irina Slavina hafði í áraraðir gagnrýnt stjórnvöld í heimalandi sínu fyrir aðför þeirra að skoðana- og tjáningafrelsi. Voru kjörorð fréttamiðils hennar „fréttaskýringar og engin ritskoðun.“

Í fyrra fékk Irina sekt fyrir að hafa gagnrýnt stjórnvöld í leiðara sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert