Bata- og baráttukveðjur streyma að

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á lóð Hvíta hússins í gær …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á lóð Hvíta hússins í gær eftir að hafa komið með þyrlu embættisins frá New Jersey þar sem hann kom fram á kosningafundi. AFP

Leiðtogar heimsins hafa sentDonald og Melaniu Trump, forsetahjónum Bandaríkjanna, batakveðjur í morgun eftir aðTrump greindi frá því á Twitter að þau hefðu bæði greinst með kórónuveiruna.

Á sama tíma voru birtar niðurstöður nýrrar rannsóknar sem sýna að Donald Trump er sá sem hefur verið atkvæðamestur jarðarbúa þegar kemur að útbreiðslu upplýsingaóreiðu í faraldrinum. 

Donald Trump og Melania Trump sjást hér koma út úr …
Donald Trump og Melania Trump sjást hér koma út úr flugvél forsetaembættisins í Cleveland á þriðjudag. AFP

Um er að ræða rannsókn sem unnin er við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum. Rannsakendur fóru yfir 38 milljónir greina sem birtar voru á ensku í fjölmiðlum heimsins frá 1. janúar til 26. maí. Í ljós kom að 522.472 fréttir og greinar innihéldu upplýsingaóreiðu tengda kórónuveirufaraldrinum. 

Frétt Miami Herald

Vinsælasta umfjöllunarefnið voru svonefndar „kraftaverkalækningar“ en fjallað var um þær í 295.351 grein og ummæli Trumps varðandi viðkomandi „lækningu“ hafði þar mest áhrif. 

Frétt CNN

Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Tedros Adhanom Ghebreyesus, er einn þeirra sem senda Trump-hjónunum batakveðjur og segist vonast til þess að þau nái bata fljótt. Trump tilkynnti fyrr á árinu að hann myndi draga Bandaríkin út úr WHO og sakaði stofnunina um að vera of höll undir Kína og að hafa ekki tekið nægjanlega vel á faraldrinum. 

Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, segist sannfærður um að lífsþróttur, bjartsýni og hversu heilsugóður Trump sé muni reynast honum vel í baráttunni við þessa hættulegu veiru. 

AFP

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sendir forsetahjónunum kveðjur á Twitter og hann vonist til þess að þau nái bata fljótt. „COVID-19 er bardagi sem við höldum öll áfram að berjast. Á hverjum degi og þar skiptir ekki máli hvar við búum.“

„Mínar bestu kveðjur til Trumps forseta og forsetafrúarinnar,“ skrifar Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á Twitter. „Vona að þau nái sér bæði fljótt af kórónuveirunni.“ Johnson veiktist sjálfur af COVID-19 og þurfti að dvelja á gjörgæsludeild í þrjá daga í apríl. 

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, segist vonast til þess að forsetahjónin nái sér fyllilega af kórónuveirusýkingunni og nái góðri heilsu fljótlega. 

Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, skrifar á Twitter að hann óski vinum sínum skjóts bata og góðrar heilsu.

„Líkt og milljónir Ísraela hugsum við Sara til Donalds Trumps forseta og Melaniu Trump forsetafrúar og óskum vinum okkar skjóts og fulls bata,“ segir forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu.

„Okkar bestu óskir til vina okkar um skjótan bata @realDonaldTrump og @FLOTUS. #Poland og #USA munu komast í gegnum þessar mannraunir og ná árangri í baráttunni við #COVID19," skrifar forseti Póllands, Andrzej Duda, á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert