Laundóttir konungs orðin prinsessa

Delfína, prinsessa af Belgíu, og karl faðir hennar.
Delfína, prinsessa af Belgíu, og karl faðir hennar. AFP

Listakonan Delphine Boël, laundóttir Alberts fyrrverandi konungs af Belgíu, hefur verið sæmd titilinum prinsessa af Belgíu. Áfrýjunardómstóll í Brussel komst að þeirri niðurstöðu í gær.

Delfína prinsessa hefur barist fyrir því undanfarin sjö ár að fá viðurkennt að hún væri dóttir konungs, en konungurinn átti í framhjáhaldi með móður hennar á sjöunda og áttunda áratugnum. Þrátt fyrir að hafa ekki alist upp hjá konungi vörðu þau tíma saman í barnæsku og kallaði hún pabba sinn Papillon (fiðrildi).

Albert konungur, sem sagði af sér árið 2013, var fyrr á árinu neyddur til að taka DNA-próf sem leiddi í ljós að Boël væri í reynd dóttir hans. Með konunglegu titlunum hefur Boël unnið fullnaðarsigur í málinu.

Hún mun nú heita Delfína af Saxen-Coburg-Gotha, prinsessa af Belgíu. Þá verða börn hennar tvö sömuleiðis prins og prinsessa.

Í yfirlýsingu frá lögmanni prinsessunnar nýju segir að hún sé ánægð með niðurstöðu málsins.„Hún er ánægð með að úrskurður dómsins bindi enda á áralanga þrautagöngu hennar og fjölskyldunnar. Sigur í dómsmáli kemur aldrei í stað ástar frá föður, en gefur trú á réttlætinu,“ segir í yfirlýsingunni.

Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka