Sýking Trumps: Hver er Hope Hicks?

Hope Hicks með Donald Trump í marslok 2018.
Hope Hicks með Donald Trump í marslok 2018. AFP

Donald og Melania Trump sýktust af kórónuveirunni skömmu eftir að náin samverkakona forsetans, Hope Hicks, hafði fallið á sama prófi.

Hicks er ekki sérlega þekkt nafn en ráðgjafi forsetans er 31 árs fyrrverandi sýningarstúlka sem kann best við sig utan sviðsljóssins.
 
Hope Hicks tók við sem talsmaður forsetans eftir að hann losaði sig við Anthony Scaramucci eftir aðeins 10 daga í starfi 2017. Hún átti engan bakgrunn í stjórnmálum en hafði tengst Trump-fjölskyldunni fimm árum fyrir kjör forsetans.

Ekki hefur allt verið slétt og fellt í þjónustu hennar í þágu Trumps. Hún sagði einu starfi sínu lausu en sneri síðar til baka í nýju hlutverki í bakvarðasveit forsetans.

En hvernig má það vera að einhver sem svo lítið hefur borið á skyldi komast  í eitt mikilvægasta starf í ríkisstjórn Bandaríkjanna.

Þangað komst hún fyrir tilstilli Ivanka Trump. Hope Hicks hóf feril sinn í almannatengslum hjá fyrirtæki sem hafði tískufyrirtæki Ivönku sem viðskiptavin.

Hluti af starfi hennar var að sýna föt frá fyrirtæki Ivönku en Hicks hafði fyrir það m.a. verið sýningarstúlka hjá Ralph Lauren. Vegna samstarfs hennar og elstu dóttur forsetans kom að því að Hope Hicks náði augum og eyrum Donalds Trump. Átti hann frumkvæðið og fól henni að sinna almannatengslum fyrir fasteigafélag sitt.

Donald Trump sagði síðar tímaritinu GQ að Hope „væri framúrskarandi“.

Árla 2015 sogaðist hún inn í stjórnmálin er hún ferðaðist með Trump á fyrsta kosningaferðalagi hans. Hún aðstoðaði hann við færslur á twittersíðu og önnur rithlutverk.

Þegar meiri alvara færðist í kosningabaráttuna varð hún að velja á milli þess að vera blaðafulltrúi frambjóðandans eða helga sig hlutverki sínu hjá fasteignafélaginu. Hún tók síðari kostinn. En enn og aftur bað Donald Trump hana í eigin persónu að vera í pólitískri ráðgjafasveit sinni. Og hún þáði það.

Hope Hicks sagði starfi sínu lausu í febrúar 2018, degi eftir að hún sagðist við vitnaleiðslur í þinginu á stundum hafa farið með meinlaus ósannindi fyrir hönd forsetans. Fór hún til starfa hjá Fox-fréttastöðinni en gekk að nýju til starfa við sveit forsetans fyrr á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert