Lögreglan í Lørenskog, skammt frá Ósló, hefur nú ættingja norska auðmannsins og fjárfestisins Tom Hagen grunaðan um að reyna að hafa áhrif á framburð eins af aðalvitnum lögreglunnar í málinu sem snýst um hvarf Anne-Elisabeth Hagen, eiginkonu Tom Hagen, af heimili þeirra hjóna 31. október 2018.
Það er norska dagblaðið VG sem greinir frá grunsemdum lögreglunnar í dag, en ættinginn, sem þó er ekki eitt barna þeirra hjóna, er grunaður um brot gegn 157. grein norskra hegningarlaga sem fjallar um þá háttsemi að „beita hótunum eða öðrum ólögmætum aðferðum gegn aðila í refsimáli með það fyrir augum að fá hann til að framkvæma ellegar láta ógert að framkvæma athöfn sem tengist málinu“.
Trond Eirik Aansløkken hefur verið skipaður verjandi grunaða og sagði hann VG í dag að skjólstæðingur hans neitaði allri sök í málinu.
Vitnið sem um ræðir, og lögreglan vill meina að reynt hafi verið að hafa áhrif á, hefur í tvígang sætt yfirheyrslu lögreglu síðan Anne-Elisabeth Hagen hvarf sporlaust í máli sem reynst hefur ein stærsta ráðgáta norskrar lögreglu hin síðustu ár.
Samkvæmt upplýsingum VG hafa upplýsingar frá vitninu snúist um deilu sem reis milli þess og Hagen auk þess sem það mun hafa látið í té nákvæmar upplýsingar um samskipti Hagen-hjónanna.
„Ég vil ekkert segja um þetta í bili,“ sagði Svein Holden, lögmaður Tom Hagen, þegar mbl.is náði tali af honum nú fyrir skömmu.
VG og fleiri norskir fjölmiðlar hafa greint frá því síðasta árið, að lögreglan telji ágreiningsefni milli Hagen-hjónanna tengjast hvarfi Anne-Elisabeth, en lögreglan hefur ekki farið ofan af því að Tom Hagen hafi verið valdur að hvarfi eiginkonu sinnar. Hefur Hagen neitað þeim áburði staðfastlega frá fyrstu byrjun og hafnað öllum kenningum um að hann hafi staðið á bak við hvarf eiginkonunnar.
Vitnið, sem um ræðir, lagði sjálft fram kæru í sumar, um að ættinginn hefði reynt að hafa áhrif á framburð þess í símtali þeirra á milli. Mat vitnið það svo, að sögn lögreglu, að viðmælandi þess hefði beinlínis hótað því í símtalinu og krafist þess að það breytti fyrri framburði sínum hjá lögreglu.
Aansløkken verjandi sagði framburð ættingjans uppspuna þegar mbl.is náði tali af honum í dag. Vegna rannsóknarhagsmuna kysi hann þó að tjá sig ekki frekar um málið að sinni.