Á fimmtudaginn var greint frá því að Hope Hicks, ein af nánustu ráðgjöfum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefði greinst smituð af kórónuveirunni. Aðfaranótt föstudags komu svo fyrstu fréttir af því að Trump sjálfur og eiginkona hans Melania Trump væru einnig smituð. Var forsetinn síðar þennan sama dag lagður inn á sjúkrahús, en það var sagt vera varúðarráðstöfun, en forsetinn fellur í áhættuhóp, bæði vegna aldurs og þar sem hann er í yfirþyngd. En hverjir aðrir í kringum forsetahjónin hafa smitast?
Þegar þetta er skrifað eru deildar meiningar um hversu alvarleg einkenni forsetinn sé með eða hafi verið með. Þannig sagði læknir forsetans að ekki hefði þurft að gefa honum súrefni, en fjölmiðlar vestanhafs segjast hafa heimildir fyrir því að honum hafi verið gefið súrefni á föstudaginn áður en hann fór á sjúkrahúsið.
Sami læknir sagði að Trump hefði greinst 72 klukkustundum fyrir blaðamannafundinn, en það hefði þýtt að Trump hefði greinst á miðvikudagsmorgun, um tveimur sólarhringum áður en hann upplýsti um málið. Á því tímabili hitti hann fjölda fólks og tók meðal annars þátt í tveimur fjáröflunarfundum fyrir framboð sitt og einum kosningafundi. Læknir forsetans sagði nokkru eftir fundinn að hann hefði farið ranglega með og að hann hefði ætlað að segja að nú væri þriðji dagur síðan Trump greindist.
Augu margra hafa beinst að samkomum þar sem forsetinn var viðstaddur nokkrum dögum áður en hann og Melinda greindust. Þannig hefur verið bent á að þó nokkrir sem hafa síðar staðfest að þeir séu smitaðir hafi verið viðstaddir þegar Trump tilnefndi Amy Coney Barrett í Hæstarétt Bandaríkjanna síðasta laugardag fyrir utan Hvíta húsið. BBC fjallar nánar um málið og sýnir meðal annars myndrænt þá sem hafa smitast og voru staddir framarlega við þá tilnefningu.
Meðal náinna samstarfsmanna Trumps sem hafa greinst smitaðir og voru þar viðstaddir eru; Kellyanne Conway, fyrrverandi ráðgjafa Trumps, Chris Christie, ráðgjafi framboðs Trumps og fyrrverandi ríkisstjóri New Jersey, Bill Stepien, kosningastjóri framboðsins, Mike Lee, öldungadeildarþingmaður repúblikana í Utah sem á sæti í dómsmálanefnd öldungadeildarinnar og Thom Tillis, öldungadeildarþingmaður repúblikana í Norður-Karólínu sem á einnig sæti í dómsmálanefndinni,
Aðrir nánir samstarfsmenn forsetans sem hafa greinst með veiruna síðustu daga eru; Ronna McDaniel, formaður landsnefndar Repúblikanaflokksins, John Jenkins, forseti Notre Dame háskólans og Ron Johnson, öldungadeildarþingmaður frá Wisconsin og formaður heimavarnarmálanefndar öldungadeildarinnar. Þó ber að geta þess að ekki er vitað til þess að Ron hafi hitt eða verið nálægt forsetanum síðustu daga, en það hafa hinir einstaklingarnir allir gert.
Trump mætti Joe Biden, mótframbjóðanda sínum, í kappræðum á þriðjudaginn. Biden hefur greint frá því að hvorki hann né eiginkona hans séu smituð, né Kamala Harris, varaforsetaefni hans. Þá hefur verið greint frá því að Mike Pence varaforseti sé ekki smitaður, sem og ráðherrarnir Mike Pompeo, Steve Mnuchin, Alex Azar, William Barr og börn forsetans, þau Ivanka, Jared og Donald yngri. Þá hefur Amy Coney Barrett, sem tilnefnd var í Hæstarétt Bandaríkjanna einnig greint frá að hún sé ekki smituð.
Eftir að þessi fjöldi smita hefur komið hefur öldungadeildin gefið út að hefðbundnum þingstörfum hafi verið frestað. Mitch McConnell, forseti öldungadeildarinnar, hefur þó gefið út að vinna dómsmálanefndarinnar við tilnefningarferli Barrett verði haldið áfram, en upp hafa vaknað spurningar hvort takist að láta öldungadeildina samþykkja hana fyrir forsetakosningarnar eftir að smit hafa komið upp meðal þingmanna. Hafa vangaveltur um hvort öldungadeildin geti jafnvel kosið rafrænt sprottið upp, en enn hefur engin ákvörðun verið tekin um slíkt.