Kosningaráðgjafi Trumps kominn á sjúkrahús

Chris Christie, fyrrverandi ríkisstjóri New Jersey og ráðgjafi framboðs Trumps.
Chris Christie, fyrrverandi ríkisstjóri New Jersey og ráðgjafi framboðs Trumps. AFP

Chris Christie, fyrrverandi ríkisstjóri New Jersey og einn af nánari samstarfsmönnum Trumps og ráðgjafi framboðs hans, hefur verið lagður inn á sjúkrahús eftir kórónuveirusmit. Kemur þetta í kjölfarið á innlögn Trumps á Walter-Reed hersjúkrahúsið í gær, en fjöldi náinna aðstoðarmanna Trumps hefur greinst með veiruna síðustu daga.

Christie, sem er 58 ára gamall, var meðal þeirra ráðgjafa sem kom að undirbúningi fyrir kappræður Trumps við Joe Biden, mótframbjóðanda Trumps í forsetakosningunum í næsta mánuði.

Í tísti sem Christie setti inn á Twitter segir hann að þetta sé aðeins gert í varúðarskyni og að honum líði vel og hafi aðeins væg einkenni sjúkdómsins. Hins vegar telji hann mikilvægt að gera allar varúðarráðstafanir vegna undirliggjandi astma sem hann er með.

Chris Christie í Rósagarðinum við Hvíta húsið um síðustu helgi …
Chris Christie í Rósagarðinum við Hvíta húsið um síðustu helgi þegar Donald Trump tilnefndi Amy Coney Barrett sem Hæstaréttardómara. Sóttvarnir virtust þar í lágmarki og hafa þó nokkrir gestir sem voru þar og eru í innsta hring Trumps greinst með smit. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert