Sean Conley, læknir Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, upplýsti fréttamenn fyrir utan Walter Reed-sjúkrahúsið, þar sem Trump var lagður inn vegna kórónuveirusmits, fyrir stuttu um að forsetinn væri við góða heilsu.
Sagði Conley að hann væri „ákaflega ánægður“ með líðan forsetans og að einkenni hans væru að batna. Sagði hann að Trump hefði fengið sýklalyfjameðferð og væri nú á fimm daga lyfjakúr með remdesivir-lyfinu, en það var framleitt gegn lifrarbólgu C og hefur verið notað gegn ebólu. Hefur það einnig reynst vel gegn kórónuveiru.
Conley sagði Trump hafa verið lausan við hita í 24 klukkustundir og að honum væri ekki gefið súrefni og hefði ekki þurft slíkt í dag. Sagðist hann þó ekki geta sagt hversu lengi Trump yrði á sjúkrahúsinu. Erfitt væri að segja til um það á þessu stigi.
Var Conley ítrekað spurður hvort gefa hefði þurft Trump súrefni, en Conley svaraði því í fyrstu aðeins til að Trump væri ekki að fá súrefni núna. Síðar sagði hann að Trump hefði heldur ekki fengið súrefni á fimmtudag eða föstudag.
Fréttamenn spurðu einnig af hverju Trump hefði verið lagður inn á sjúkrahús ef hann væri ekki alvarlega veikur. Conley svaraði því til að það væri vegna þess að Trump væri forseti Bandaríkjanna.
Kom fram hjá Conley að 72 klukkustundir væru síðan Trump hefði greinst, en það þýðir að fyrsta greining hafi verið á miðvikudaginn, en áður hafði verið greint frá veikindum Trumps seint á fimmtudegi eða í byrjun föstudags.