Trump gefin lyf sem alvarlega veikir fá

Heilsa Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, sem veikur er af COVID-19, fer batnandi, að sögn lækna hans, sem segja að mögulega verði hann útskrifaður af spítalanum á mánudag. Samt sem áður fékk Trump lyf í dag sem er einungis mælt með að alvarlega veikir COVID-19-sjúklingar taki.

Sean Conley, læknir forsetans, segir að Trump hafi verið gefið steralyfið dexamethasone eftir að súrefnismettun í blóði hans minnkaði. Forsetinn fékk fyrstu skammtana af lyfinu í dag og fékk súrefni í það minnsta einu sinni. 

Samkvæmt frétt BBC hefur lyfið bjargað mannslífum með því að hægja á ónæmiskerfinu, sem getur orðið ofvirkt hjá COVID-19-sjúklingum. Lyfið þarf þó að nota á réttum tímapunkti. Taki sjúklingur það of snemma getur lyfið haft slæmar afleiðingar í för með sér. Dexamethasone er ekki lyf sem er gefið í vægum tilfellum sjúkdómsins heldur virkar það best þegar það er gefið á sama tíma og fólk þarf á súrefnisgjöf að halda. 

Sean Conley, einn af læknum Trumps, svarar spurningum blaðamanna.
Sean Conley, einn af læknum Trumps, svarar spurningum blaðamanna. AFP

Hefur einkenni alvarlegra veikinda

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) mælir með því að lyfið sé notað í alvarlegum tilvikum. Súrefnismettun í blóði Trumps féll niður fyrir 94% í gærmorgun en samkvæmt WHO er það einkenni alvarlegra veikinda. 

Ýmsir sem forsetanum tengjast hafa reynst smitaðir af kórónuveirunni, þar á meðal Melania Trump forsetafrú. Margir þeirra sem greinst hafa sóttu fjölmennan viðburð í Hvíta húsinu um síðstu helgi hvar tilnefning dómarans Amy Coney Barrett til hæstaréttar fór fram. Viðburðurinn er nú skoðaður sem mögulegur „hópsýkingarviðburður“.

Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, sagði í dag að tilfærsla valds frá forsetanum til varaforsetans Mikes Pence væri ekki til umræðu. „Hingað til hefur forsetinn verið í frábæru standi. Hann stjórnar ríkisstjórn landsins.“

Lifandi streymi BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert