Ungur gyðingur varð fyrir alvarlegum meiðslum í gær eftir að ráðist var á hann með skóflu fyrir utan samkomuhús gyðinga í þýsku borginni Hamborg.
Maðurinn, sem er 26 ára, var laminn ítrekaði í höfuðið af öðrum karlmanni þegar hann var á leiðinni inn í samkomuhúsið. Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, fordæmdi árásina og sagði hana fela í sér „viðbjóðslega gyðingaandúð“.
Lögreglumenn sem er gert að standa vörð um samkomuhúsið handtóku árásarmanninn, sem er 29 ára og var í klæðnaði sem líktist þýskum herbúningi.
Að sögn þýsku fréttastofunnar DPA fannst í vasa hans bréf með hakakrossinum áletruðum.
Fórnarlambinu tókst að komast í burtu frá árásarmanninum og fólk sem var á gangi kom honum til aðstoðar áður en hann var fluttur á sjúkrahús. Að sögn talsmanns lögreglunnar, sem DPA ræddi við, er árásarmaðurinn Þjóðverji af kasöskum uppruna. Virtist hann vera í annarlegu ástandi og því var erfitt að yfirheyra hann.
Ronald Lauder, yfirmaður heimsþings gyðinga, fordæmdi árásina og benti á að hún hefði verið gerð einu ári eftir að tveir voru skotnir til bana þegar öfgamaður reyndi að ráðast inn í samkomuhús gyðinga í borginni Halle. „Árásarmaðurinn í dag verður að svara til saka líkt og allir sem fremja glæpi þar sem hatur og skortur á umburðarlyndi er í forgrunni,“ sagði hann.
Í síðasta mánuði talaði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, um hve mikið hún skammaðist sín vegna aukinnar gyðingaandúðar í Þýskalandi. Glæpum tengdum gyðingaandúð hefur fjölgað jafnt og þétt í landinu undanfarin ár. Skráðir glæpir voru 2.032 talsins árið 2019, sem var 13% meira en árið áður.
Um sex milljónir gyðinga voru myrtar af nasistum í síðari heimsstyrjöldinni.