Tíundi hluti mannkyns hefur smitast

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, ávarpar fundinn í dag.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, ávarpar fundinn í dag. AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hefur áætlað að um 10% mannkyns hafi nú smitast af kórónuveirunni, en það er mun hærra hlutfall en opinberar tölur gefa til kynna. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, sagði í gær að faraldurinn kallaði á naflaskoðun hjá öllum, þar á meðal samtökunum sjálfum. 

Samkvæmt talningu Johns Hopkins-háskólans í kvöld höfðu rúmlega 35,3 milljónir tilfella verið skráðar um allan heim, og þar af hefur rúmlega ein milljón manna látið lífið af völdum veirunnar. Michael Ryan, forstöðumaður neyðarsviðs WHO, sagði hins vegar á fundi framkvæmdastjórnar samtakanna í gær, að áætlað væri að um 10% mannkyns kynni að hafa smitast af veirunni til þessa, en það eru um 780 milljónir manna.

Kom fram í máli Ryans að fjöldi tilfella væri mjög mismunandi eftir því hvort um þéttbýli eða dreifbýli væri að ræða, og þá herjaði veiran misjafnt á mismunandi hópa. „En það sem það þýðir er að mikill meirihluti heimsbyggðarinnar er enn í hættu,“ sagði hann. 

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, ávarpaði einnig fundinn og sagði faraldurinn hafa hringt viðvörunarbjöllum. „Við þurfum öll að horfa í spegilinn og spyrja hvað við getum gert betur,“ sagði hann. 

Tedros vísaði þó á bug gagnrýni á það hvernig stofnunin hefði brugðist við faraldrinum og sagði hann starfsfólk WHO vinna sleitulaust að því að styðja ríki í baráttunni gegn veirunni. Þó viðurkenndi Tedros að umbætur á starfsemi stofnunarinnar þyrftu að ganga hraðar fyrir sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert