Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að hann hafi haft betur í baráttunni við kórónuveiruna og það sama geti aðrir gert. Í myndskeiðsskilaboðum sem hann sendi frá sér úr Hvíta húsinu segir hann, grímulaus, við bandarísku þjóðina: „Ekki vera hrædd við hana. Þið munið hafa betur.“
Líkt og fram hefur komið á mbl.is var Trump útskrifaður af sjúkrahúsi í gærkvöldi eftir að hafa dvalið þar í þrjár nætur. Þegar Trump var kominn að Hvíta húsinu tók hann af sér grímuna en nokkrir starfsmenn hússins og aðstoðarfólk hans hafa greinst með kórónuveiruna undanfarna daga.
„Líður frábærlega,“ skrifaði Trump á Twitter. „Ekki vera hrædd við COVID. Ekki láta það stjórna lífi ykkar.“
Alls hafa 7,4 milljónir Bandaríkjamanna greinst með COVID-19 og 210 þúsund hafa látist af völdum sjúkdómsins. Í annarri færslu af sjúkrahúsinu í gær sagði Trump að honum liði betur en fyrir 20 árum og að hann myndi hefja kosningabaráttuna fljótlega að nýju.
Þegar Trump gekk út af sjúkrahúsinu í dökkbláum jakkafötum, með bindi og grímu, þakkaði hann fyrir sig og hunsaði spurningar fjölmiðlafólks. Þar á meðal spurninguna: Ert þú einn af þeim sem dreifir veirunni víða?
Eftir stutt ferðalag með þyrlu að Hvíta húsinu var tekin mynd af Trump þar sem hann stóð einn á Truman-svölunum. Þar tók hann af sér grímuna áður en hann lyfti þumlinum upp og heilsaði að hætti hermanna.
Nokkrum tímum síðar hófu tíst að berast frá forsetanum. Þar á meðal af heimkomu hans.
Í myndskeiðsskilaboðum hvatti hann bandarísku þjóðina til að snúa aftur til vinnu. „Þið munið hafa betur [gegn kórónuveirunni],“ sagði hann. „Við eigum bestu lækningatækin, við eigum bestu læknana. Allt nýlegt.“
Trump talaði einnig um að hann hafi sem leiðtogi þjóðarinnar staðið í fararbroddi. Hann hafi orðið að gera það þrátt fyrir hættuna sem því fylgdi.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 5, 2020
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 5, 2020