Fimm stjörnu sóttkví

AFP

Einkasundlaug, sælkeramáltíðir og líkamshitaeftirlit tvisvar á dag. Velkomin í fimm stjörnu sóttkví í Taílandi. Eftir að hafa lokað landamærum sínum í hálft ár eru taílensk yfirvöld að byrja að taka við ferðamönnum á nýjan leik. Þeir fyrstu eru væntanlegir til Phuket á næstu vikum.

En áður en þeir 300 ferðamenn frá Norðurlöndunum og Kína sem eru væntanlegir til Phuket fá að fara á ströndina þurfa þeir að ljúka tveggja vikna sóttkví og fara í tvær skimanir undir vökulu auga öryggisvarða og lækna.

„Þetta verður þægilegt en ég er hræddur um að kvíði sæki að vegna einangrunarinnar,“  segir Jean-François, franskur eftirlaunaþegi sem býr í Svíþjóð. Hann segist vonast til þess að með dvölinni í Taílandi geti hann losnað að mestu undan vetrinum en er þeirrar skoðunar að yfirvöld í Taílandi gangi of langt í sóttvarnaaðgerðum.

Á Senses Resort er Patong-flóa í Phuket er búið að gera 16 lúxusíbúðir tilbúnar til að taka á móti gestum í sóttkví. Öryggismyndavélum hefur verið komið víða fyrir og starfsfólk þjálfað í að taka eftir einkennum sem geti bent til að viðkomandi sé með COVID-19.

Eigandi hótelsins segir að ágóðinn sé ekki mikill fyrir þessa sérstöku gesti vegna þess mikla kostnaðar sem fylgi. En ekki sé önnur leið fær til þess að tryggja atvinnu starfsfólks og hagkerfi svæðisins. Alls hafa yfirvöld samþykkt níu hótel á Phuket sem hafa heimild til að taka við gestum í sóttkví. Gríðarlega miklar kröfur eru gerðar og eru aðeins lúxushótel fær um að veita þá þjónustu sem gerð er krafa um.

AFP

Kostnaðurinn á fjögurra manna fjölskyldu fyrir tveggja vikna sóttkví á Senses er á bilinu 5.300-18.700 bandaríkjadalir. Þetta svarar til 730 þúsund-2,6 milljóna króna. Ef Phuket-módelið gengur upp á að koma því í gang víðar í Taílandi. Þegar sóttkví er lokið getur fólk ferðast eins og það lystir í landinu. 

Fastlega er gert ráð fyrir að fáir ferðamenn muni fara þessa leið og þá aðallega þeir sem ætla sér að dvelja í landinu í nokkra mánuði. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert