Forsætisráðherra Eistlands óskaði í dag eftir því að rannsókn hæfist „sem allra fyrst“ á tildrögum þess að farþegaferjan MS Estonia sökk í Eystrasalti með þeim afleiðingum að 852 fórust.
Stutt er síðan heimildarmynd í fimm hlutum kom út með nýrri tilgátu um tildrög sjóslyssins, sem er það mannskæðasta í Evrópu á friðartímum.
„Við viljum rannsaka málið frekar sem allra fyrst til að fá svör við öllum þeim spurningum sem hafa vaknað í tengslum við þessar nýju upplýsingar,“ sagði forsætisráðherrann Juri Ratas í yfirlýsingu að loknum ríkisstjórnarfundi.
Þar kemur fram að ákveðið hafi verið að leggja fram tillögu um sameiginlega rannsókn Finnlands og Svíþjóðar á slysinu.
Sett verður í forgang að rannsaka staðsetningu flaksins og hafsbotninn þar í kring til að átta sig á gati sem kom á skipsskrokkinn og hvort það tengist því að skipið sökk.
Í heimildarmyndinni kom fram að fundist hefði fjögurra metra hola í skipsskrokknum sem ekki hefði verið vitað um áður. Ferjan sökk á leið sinni frá Tallinn í Eistlandi til Stokkhólms 28. september 1994.
Niðurstaða rannsóknar frá árinu 1997 á tildrögum slyssins var að sjór hefði streymt inn um hlera á stefni ferjunnar sem leiddi inn á bílaþilfar skipsins og valdið því að ferjan sökk í vondu veðri.