Ungversk lög dæmd ólög

Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, sést hér setja á sig grímu …
Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, sést hér setja á sig grímu á fundi hjá ESB fyrr í mánuðinum. AFP

Dómstóll Evrópusambandsins úrskurðaði í dag að lög sem sett voru í Ungverjalandi varðandi fjármögnun háskóla væru ólögleg. Lögin voru sett til höfuðs háskóla sem fjárfestirinn George Soros stofnaði.

Segir í niðurstöðu dómstólsins að þau skilyrði sem stjórnvöld í Ungverjalandi hafi sett hvað varðar starfsemi erlendra menntastofnana í landinu stangist á við lög Evrópusambandsins. 

Soros, sem er bandarískur en fæddur í Ungverjalandi, kom háskólanum Central European University (CEU) á laggirnar í höfuðborg Ungverjalands, Búdapest, árið 1991 en neyddist til þess að flytja hann til Vínar í Austurríki í fyrra vegna laganna.

Soros, sem hætti sem stjórnarformaður háskólaráðs CEU árið 2007, hefur stutt við aðgerðir sem miða að borgaralegum réttindum og lýðræðishugmyndum í Ungverjalandi en það hefur ekki fallið í kramið hjá forsætisráðherra landsins, Viktor Orban. 

Framkvæmdastjórn ESB höfðaði mál gegn Ungverjalandi til að fá úr því skorið hvort lögin stæðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert