Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, leyfði hinni 16 ára Öövu Murto að taka við embætti sínu í dag um stundarsakir.
Er þetta gert til kynningar herferðinni „Girls Takeover“ sem berst gegn kynjamisrétti á heimsvísu með því að leyfa táningum að taka við valdastöðum á ýmsum sviðum.
„Það er ánægjulegt að fá að tala við ykkur hér í dag, þótt ég vildi óska þess að ég þyrfti ekki að standa hér; að herferðir eins og Girls Takeover væru orðnar óþarfar,“ sagði Aava í ræðu sinni í dag. „Hins vegar er sannleikurinn sá að við höfum ekki afrekað jafnrétti kynjanna enn.“
Þótt Aava hafi ekki tekið við öllum skyldum forsætisráðherra fundaði hún með ýmsum stjórnmálamönnum í dag og lagði á þeim fundum sérstaka áherslu á kvenréttindafræðslu.
Sanna Marin varð sjálf yngsti forsætisráðherra heims þegar hún tók við embættinu í fyrra, þá aðeins 34 ára gömul.