Tveir meðlimir hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins fóru fyrir dómstóla í Virginíu í Bandaríkjunum í dag, sakaðir um að hafa tekið þátt í að myrða fjóra Bandaríkjamenn sem haldið var í gíslingu.
Hinir ákærðu, að nafni El Shafee Elsheikh og Alexanda Kotey, voru breskir ríkisborgarar, en voru síðan sviptir ríkisborgararétti sínum eftir að þeir fóru til Sýrlands árið 2012 og gengu til liðs við Íslamska ríkið. Þeir voru, ásamt tveimur öðrum mönnum, í hryðjuverkasellu sem fékk viðurnefnið „Bítlarnir“ vegna þess að þeir töluðu allir með breskum hreim.
Fórnarlömb þeirra í þessu máli eru tveir fréttamenn og tveir hjálparstarfsmenn sem störfuðu í Sýrlandi. „Skilaboð okkar til annarra hryðjuverkamanna um allan heim eru þessi – ef þið valdið Bandaríkjamönnum skaða munuð þið þurfa að takast á við bandarísk vopn á vígvellinum, eða bandarísk lög fyrir dómstólum okkar,“ sagði Bill Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna í yfirlýsingu.
Fjölskyldur og aðstandendur fórnarlambanna höfðu þrýst á bandarísk stjórnvöld um að flytja þá ekki í fangelsið á Guantánamo-flóa á Kúbu þar sem hryðjuverkamenn eru yfirleitt geymdir, heldur leiða þá fyrir dómstóla í Bandaríkjunum frekar, að því er segir í frétt AFP-fréttaveitunnar.