COVID-19 breiðist út um Hvíta húsið

Donald Trump forseti Bandaríkjanna sést hér taka af sér grímuna …
Donald Trump forseti Bandaríkjanna sést hér taka af sér grímuna þegar hann er kominn heim af sjúkrahúsinu. AFP

Kórónuveiran heldur áfram að breiðast út á meðal þeirra sem eru mikið í kringum Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Meðal annars er Stephen Miller, aðstoðarmaður forsetans, smitaður og háttsettir foringjar í hernum.

Miller, sem hafði verið í sóttkví í fimm daga, staðfesti í gær að hann væri með COVID-19. Mark Milley hershöfðingi og fleiri herforingjar eru í sóttkví eftir að yfirmaður strandgæslunnar, Charles Ray, greindist smitaður. 

Í yfirlýsingu frá Miller kemur fram að hann hafi reynst ósmitaður í daglegri sýnatöku allt þangað til í gær. Hann sé nú í einangrun. Eiginkona hans, Katie Miller, sem er talskona Mike Pence varaforseta, greindist með COVID-19 í maí. Amma Millers, Ruth Glosser, lést af völdum COVID-19 í júlí samkvæmt fréttum fjölmiðla en Hvíta húsið neitaði að staðfesta það í júlí að COVID-19 hefði dregið hana til dauða. Aðeins að hún hefði látist háöldruð í svefni en Glosser var 97 ára gömul er hún lést. Aftur á móti er skráð í dánarmeinaskrá að hún hafi látist úr andnauð af völdum COVID-19.

Nokkrir háttsettir einstaklingar innan Repúblikanaflokksins hafa einnig greinst með COVID-19 síðustu daga sem og fólk nákomið forsetanum, Melania Trump og Hope Hicks.

Talskona forsetans, Kayleigh McEnany, greindi frá því á mánudag að hún væri smituð sem og þrír aðrir starfsmenn á fjölmiðlaskrifstofu Hvíta hússins, Chad Gilmartin, Karoline Leavitt og Jalen Drummond.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert