Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Kamala Harris, varaforsetaefni Demókrataflokksins, munu eigast við í kappræðum í Salt Lake City í Utah í nótt. Kappræðurnar hefjast kl. 1 að íslenskum tíma og verður þeim streymt hér á mbl.is.
Kappræður varaforsetaefnanna vekja að öllu jöfnu litla athygli, en sú staðreynd að bæði Donald Trump Bandaríkjaforseti og Joe Biden, frambjóðandi demókrata, eru á áttræðisaldri hefur aukið áhuga fólks fyrir kappræðunum í kvöld. Þá hafa veikindi Trumps Bandaríkjaforseta ekki orðið til þess að slæva áhugann, en ljóst er að bæði Pence og Harris þurfa að sýna að þau ráði við að taka við keflinu, falli næsti forseti frá á kjörtímabilinu.
Kappræður Trumps og Biden, sem fóru fram á þriðjudaginn í síðustu viku, þóttu ekki vel heppnaðar. Talið er ólíklegt að Pence og Harris muni vera á svipuðum nótum, en repúblíkanar og demókratar hafa deilt í aðdraganda kappræðnanna um það hvernig öryggi frambjóðandanna verði háttað.
Hafa demókratar kallað eftir því að öryggisgler verði sett á milli þeirra Pence og Harris til þess að draga úr líkum á mögulegu kórónuveirusmiti, en Pence og aðstoðarmenn hans hafa sagt það óþarfi, þar sem hann hafi ekki greinst með veiruna líkt og nokkrir aðrir af helstu samstarfsmönnum Trumps.