Atli Steinn Guðmundsson skrifar frá Ósló
Lögreglan í Ósló fer ekki varhluta af því að norska höfuðborgin er langt yfir öllum öðrum sveitarfélögum landsins þegar kemur að fjölda kórónuveirutilfella, en þar eru nýsmit 685 á hverja 100.000 íbúa um þessar mundir.
Nálgast skráð mál hjá lögreglu vegna kórónuveirusmits nú 200 og snúast 78 þeirra um rof á sóttkví eða einangrun en sektir fyrir slík brot nema á bilinu 5.000 til 22.000 norskum krónum sem svarar til 75.000 – 330.000 íslenskra króna.
„Oft koma slík mál upp fyrir tilviljun í tengslum við önnur brot eða vitni greina frá þeim,“ segir Erik Willmann, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Ósló, í samtali við dagblaðið Aftenposten og bætir því við að lögregla heimsæki fólk þó ekki sérstaklega til að kanna hvort það haldi sína sóttkví.
Í 90 málum hafa kórónuveirutengd brot komið upp í tengslum við önnur brot og hafa þar hótanir um að smita lögreglumenn eða aðra verið nokkuð áberandi. „Slíkar hótanir geta orðið til refsiþyngingar þar sem hótunin snýst um eitthvað sem hefur mikla hættueiginleika,“ segir Willmann og bendir á 156. grein norsku hegningarlaganna sem fjallar um hótanir í garð opinberra starfsmanna. Í mars hlaut maður 75 daga fangelsisdóm í Héraðsdómi Óslóar fyrir að hrækja á lögreglumann og hóta honum smiti.
„Eins höfum við sektað manneskju, sem var ógnandi í háttum á læknavaktinni í Ósló og hótaði að smita viðstadda af kórónuveiru, sektin þar var 12.000 krónur [180.000 ISK],“ segir Willmann og bendir á að þar hefði refsingin reyndar getað orðið allt að tveggja ára fangelsi hefðu sakir talist miklar samkvæmt viðeigandi lagagrein.
Enn sem komið er hefur lögreglan í Ósló þó ekki sektað neinn fyrir að nota ekki andlitsgrímu í almenningssamgöngutækjum en frá klukkan 12 á hádegi þriðjudaginn 29. september er grímuskylda í strætisvögnum, lestum og sporvögnum borgarinnar sé ekki unnt að halda öruggri eins metra fjarlægð milli fólks. Sektin þar nemur 2.000 krónum, eða 30.000 íslenskum.