Forsætisráðherra Kirgistan hefur sagt af sér eftir að fjöldamótmæli brutust út í kjölfar þingkosninga í landinu. Mótmælendur frelsuðu stjórnarandstæðinginn Sadyr Japarov og hefur hann verið gerður að forsætisráðherra. Japarov hafði setið í fangelsi síðan í júní en hann var dæmdur í ellefu ára fangelsi fyrir spillingu.
Mótmælendur hafa tekið yfir húsnæði ríkisstjórnarinnar og er forseti landsins í felum.
Þingkosningar fóru fram í Kirgistan á sunnudag og hlutu þrír flokkar hliðhollir ríkjandi stjórnvöldum yfirgnæfandi meirihluta atkvæða samkvæmt opinberum tölum. Enginn af helstu flokkum stjórnarandstæðinga náði manni inn á þing.
Fjölmenn mótmæli hófust í höfuðborg landsins, Bishek, strax á mánudag. Er forseti landsins, Sooronbai Jeenbekov, sakaður um að hafa keypt flokkum honum hliðhollum atkvæði og reynt að hafa áhrif á framkvæmd kosninganna. Alþjóðlegir eftirlitsmenn hafa sagt ásakanirnar „trúverðugar“ og gefa tilefni til að hafa „alvarlegar áhyggjur“.
Landskjörstjórn Kirgistan hefur nú ógilt kosningaúrslitin „í ljósi pólitískrar stöðu í landinu“.
Þótt forsætisráðherrann sé farinn frá völdum, kalla mótmælendur eftir því að forsetinn, Jeenbekov, geri það sömuleiðis. Jeenbekov, sem er hliðhollur rússneskum stjórnvöldum, er sem fyrr segir í felum en mótmælendur hafa gert sig heimakomna í forsetahöllinni. Stjórnmálaskýrendur segja að Jeenbekov, sem var kosinn árið 2017, hafi misst allt vald en ekki sé ljóst hver muni taka við af honum.
„Höfuðmarkmið mótmælendanna var ekki að fá kosningarnar ógildar heldur að koma mér frá völdum,“ segir Jeenbekov í símaviðtali við BBC frá felustað sínum. Hann ýjar í samtalinu að því að hann sé til í að láta af völdum. „Til að leysa þetta vandamál er ég tilbúinn að færa sterkum leiðtoga ábyrgðina, sama í hvaða flokki hann er. Ég er meira að segja til í að hjálpa þeim,“ segir hann.