Yfir eitt þúsund kórónuveirusmit greindust í Sviss í gær og er þetta í fyrsta sinn frá 1. apríl sem svo mörg smit greinast þar í landi.
Frá 16. mars til 1. apríl fóru greind smit í Sviss yfir eitt þúsund þegar faraldurinn var í hámarki.
Heilbrigðisráðherrann Alain Berset hefur að vonum áhyggjur af fjölgun smita og hvatti hann landa sína til að „taka sér tak“ með því að virða fjarlægðarmörk og þvo sér vel og vandlega um hendurnar.
Til að komast hjá því að loka fyrirtækjum og stofnunum „verðum við að halda okkur við grunnreglurnar“, sagði hann.
Alls voru tilkynnt í dag 1.074 ný tilfelli veirunnar í Sviss. Þar með eru smitin orðin næstum 57.600 og dauðsföllin 1.788 talsins.