60 níðingar handteknir í Frakklandi

AFP

Franska lögreglan hefur handtekið um sextíu manns sem eru grunaðir um að hafa hlaðið niður, boðið upp á og deilt myndum og myndskeiðum sem sýna níðingsverk gagnvart börnum. Fjórir þeirra eru einnig grunaðir um að hafa nauðgað börnum.

Um er að ræða fólk á aldrinum 28 til 75 ára og eru þetta allt karlar fyrir utan eina konu sem var handtekin ásamt eiginmanni sínum. Meðal þeirra handteknu er knattspyrnuþjálfari, kennari á eftirlaunum, tölvunarfræðingur og múslímaklerkur.

Aðgerðirnar hófust á mánudag og var fólkið handtekið víða í Frakklandi að sögn Eric Berot, sem stýrir OCRVP, deild innan lögreglunnar sem rannsakar barnaníð og barnaníðinga.

Berot segir að engin stétt skeri sig úr, barnaníðinga sé að finna í öllum kimum samfélagsins. Rúmur tugur hinna handteknu eru þekktir kynferðisbrotamenn. 

Lögreglan lagði hald á um 100 harða diska, tugi snjallsíma og tölva. Um 150 USB-lykla sem og mynd- og geisladiska. Lagt var hald á þúsundir mynda og myndskeiða í aðgerðunum. Alls tóku á þriðja hundrað lögreglumenn þátt í þeim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert