Hugðust hefja borgarastyrjöld

Þrettán menn voru handteknir í dag í Bandaríkjunum, en þeir höfðu lagt á ráðin um að ræna Gretchen Whitmer, ríkisstjóra Michigan, og hefja um leið „borgarastríð“. Hluti mannanna er talinn tilheyra samtökum hægri-öfgamanna, og bíður sex mannanna alríkisákæra fyrir mannránstilraunina fyrirhuguðu. 

Dana Nessel, dómsmálaráðherra Michigan-ríkis, sagði á fréttamannafundi fyrr í kvöld að ógnin við Whitmer hefði verið metin bæði alvarleg og trúverðug. Að sögn Andrew Birge, alríkissaksóknara fyrir vesturhluta Michigan, höfðu mennirnir kannað sumarhús Whitmer og prófað heimatilbúna sprengju, sem átti að afvegaleiða lögregluna á meðan þeir rændu ríkisstjóranum. 

Whitmer, sem er demókrati, hefur mátt sitja undir þungum ásökunum frá Donald Trump Bandaríkjaforseta og stuðningsmönnum hans vegna þeirra sóttvarnaraðgerða sem Michigan-ríki hefur ráðist í. Þannig tísti Trump í apríl-mánuði hvatningu um að Michigan yrði „frelsað“, líkt og ríkið væri í óvinahöndum. 

Nessel greindi þá frá því að sjö menn, sem tilheyrðu vopnuðum hópi, ættu yfir höfði sér ákæru, en þeir ætluðu sér að myrða lögreglumenn og ýta undir borgarastyrjöld með því að ráðast á ríkisþinghús Michigan í Lansing-borg. Ætluðu þeir sér einnig að ræna Whitmer. 

Vopnaður mótmælandi stendur fyrir framan þinghús Michigan-ríkis 15. apríl síðastliðinn.
Vopnaður mótmælandi stendur fyrir framan þinghús Michigan-ríkis 15. apríl síðastliðinn. AFP

Í yfirlýsingu bandarísku alríkislögreglunnar sagði að hún hefði fylgst með hópi fólks frá því snemma á þessu ári, sem hefðu lagt á ráðin um að „steypa“ vissum öflum innan stjórnkerfisins af stóli. Hugðust þeir ætla að rétta yfir Whitmer fyrir „landráð“, og stefndu mennirnir að því að láta til skarar skríða fyrir kosningarnar í nóvember. 

Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan.
Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert