Óttast mikla fjölgun smita

Óttast er að nýjum kórónuveirusmitum eigi eftir að fjölga mikið í Þýskalandi á næstunni en að sögn heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn, greindust yfir fjögur þúsund ný smit þar síðasta sólarhringinn. Hafa þau ekki verið svo mörg á einum degi síðan snemma í apríl.

Lothar Wieler, yfirmaður Robert Koch-stofnunarinnar sem fer með farsóttamál í Þýskalandi, varar við því að búast megi við að veiran geisi stjórnlaust í landinu. Alls voru ný smit 4.058 talsins síðasta sólarhringinn en daginn áður voru þau 2.828.

Spahn segir fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur af mikilli fjölgun smita. Hvetur hann Þjóðverja til að slaka ekki á persónulegum sóttvörnum. „Nánast ekkert ríki í Evrópu hefur tekið jafn vel á faraldrinum hingað til,“ segir hann. „En við megum ekki taka neina áhættu og glata því sem við höfum náð fram hingað til,“ bætir hann við. 

Hann hvetur Þjóðverja til að virða sóttvarnareglur; vera með grímu, þvo sér um hendur og virða fjarlægðarmörk, hlaða niður smitrakningarappi og lofta vel út á heimilum og vinnustöðum. 

„Við vitum ekki hvernig ástandið mun þróast í Þýskalandi á komandi vikum,“ segir Wieler en þeir Spahn héldu sameiginlegan blaðamannafund í Berlín í morgun. 

„Það er mögulegt að við förum yfir 10 þúsund ný smit á dag. Það er mögulegt að veiran dreifist óhamið. En ég vona að þetta verði ekki að veruleika.“

Unga fólkið telur sig ósigrandi

Stutt er í haustfrí meðal skólabarna í Þýskalandi og hefur Angela Merkel kanslari beðið fólk að ferðast ekki út fyrir landsteinana í haustfríinu. Eins hafa sambandsríkin 16 hert reglur varðandi innanlandsferðalög og mörg þeirra samþykkt að banna gestum frá svokölluðum áhættusvæðum að gista á hótelum eða íbúðum fyrir ferðamenn. 

Í Þýskalandi eru staðir með yfir 50 ný smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu sjö daga taldir áhættusvæði. Hluti Berlínar fellur þar undir og hefur börum og veitingahúsum verið gert að stytta afgreiðslutíma sinn til klukkan 23. Svipaða sögu er að segja af hluta Frankfurt. 

Spahn segir að margir þeirra sem eru smitaðir af COVID-19 í dag séu ungt fólk sem hafi talið sig ósigrandi. Mætt í partí og ferðast eins og því sýndist. En ungt fólk er ekki ósigrandi að sögn Spahns og hvetur hann ungt fólk til þess að hugsa til eldri ættingja sem eigi á hættu að veikjast alvarlega smitist þeir.

Alls hafa 310.144 smit verið staðfest í Þýskalandi allt frá upphafi heimsfaraldursins. Af þeim hafa 9.578 látist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert