Viðhorf almennings á Vesturlöndum til alræðisríkisins Kína hefur versnað mikið frá því faraldur kórónuveirunnar tók að breiðast út um heimsbyggðina. Þetta sýnir könnun Pew-rannsóknamiðstöðvarinnar sem gerð var í fjórtán mismunandi löndum.
73% Bandaríkjamanna sjá Kína í slæmu ljósi og hefur fjöldi þeirra aukist um nærri tuttugu prósentustig.
Mest jókst neikvæðnin gagnvart Kína á meðal Ástrala, en Ástralía hefur einnig þurft að þola neikvæðar efnahagsaðgerðir kínverskra stjórnvalda í viðskiptadeilu Bandaríkjanna og Kína, þar sem Ástralía styður að mestu við Bandaríkin.
81% Ástrala sjá nú Kína í slæmu ljósi og hefur fjöldi þeirra aukist um 24% á milli ára.
Um met er að ræða, miðað við kannanir sem miðstöðin hefur áður gert. Einnig hefur aldrei mælst jafn mikil óánægja með Kína í Bretlandi, Hollandi, Kanada, Spáni, Suður-Kóreu, Svíþjóð og Þýskalandi.
Ef litið er yfir þessi fjórtán lönd líta 61% svo á að Kína hafi höndlað útbreiðslu faraldursins illa.