Lögreglan í Berlín, höfuðborg Þýskalands, gerði rassíu í einu af síðustu hústökusamfélögum borgarinnar og bar um 50 einstaklinga þaðan út. Eigandi hússins Liebig 34, sem fólkið hélt til í, ákvað fyrir tveimur árum að framlengja ekki leigusamning við íbúana og stefndi þeim svo þegar þeir neituðu að yfirgefa fasteignina.
Rúmlega 1.500 lögreglumenn mættu fyrir utan Liebig 34 í morgun og byrjuðu að framfylgja útburðargerðinni. Þrátt fyrir að nokkur hundruð manns héldu mótmæli gegn útburðinum fyrir utan húsið fór hann friðsamlega fram að mestu leyti.
Lögfræðingur sem starfar fyrir hústökufólkið sagði það vera „brot á mannréttindum að henda fólki á götuna í miðjum veirufaraldri, þegar það getur ekki greitt leigu“.
Liebig 34 er í austurhluta Berlínar og hefur hýst jaðarsamfélag, sem lýsir sér sem „anarkískt, hinsegin og feminískt“, síðan 1999.