Bandaríska þjóðvarðliðið hefur verið kallað út í Louisiana og fólk beðið um að yfirgefa heimili sín við strandlengjuna í dag vegna fellibyljarins Deltu sem er á hraðferð í átt að ríkinu.
Vara yfirvöld við því að stormurinn eigi eftir að sækja í sig veðrið og hætta sé á flóðum í ríkinu. Delta hefur farið á ógnarhraða yfir vesturhluta Mexíkóflóa. Þar rifnuðu tré upp með rótum og rafmagn fór víða af. Búist er við að stormurinn nái að landi í Bandaríkjunum síðar í dag en aðeins er vika síðan annað fárviðri fór þar yfir.
„Ég veit ekki hvort við eigum heimili þegar við snúum aftur heim,“ segir Kimberly Hester, sem býr í Lake Charles í Louisiana en stormurinn stefnir beint þangað. „Ég bið til Guðs á hverju kvöldi um að við eigum að minnsta kosti hús til að koma heim í.“
Vindhraði Deltu er nú 54 metrar á sekúndu og gerir Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna ráð fyrir að hún komi að landi síðdegis. Delta er nú þriðja stigs fellibylur sem þýðir að hún getur valdið gríðarlegri eyðileggingu. Varað er við mikilli hækkun sjávarmáls norðanmegin í Mexíkóflóa samfara óveðrinu.
Fellibylurinn Lára reið yfir Lousiana í lok ágúst en hún var 4. stigs fellibylur er hún fór yfir ríðið og olli mikilli eyðileggingu. Í bænum Lake Charles er enn allt á hvolfi eftir að Lára fór þar yfir.