Dæmdur til dauða fyrir röð trúarmorða

Raðmorðinginn Gracious David-West var dæmdur til dauða í dag.
Raðmorðinginn Gracious David-West var dæmdur til dauða í dag. Ljósmynd/Nígeríska lögreglan

Nígerískur maður var í dag dæmdur til dauða fyrir að myrða níu konur á hótelherbergjum víðs vegar um borgina Harcourthöfn (e. Port Harcourt), sem liggur við suðurströnd Nígeríu.  

Hinn fertugi Gracious David-West var handtekinn í september í fyrra eftir að lík nokkurra kvenna fundust á hótelum í borginni, en þær höfðu allar verið kyrktar. Hvítir klútar höfðu svo verið bundnir utan um háls þeirra og mitti, sem gefur til kynna að um möguleg trúarmorð hafi verið að ræða að sögn lögreglu.

Eftir að David-West var handtekinn smánuðu lögreglumenn hann opinberlega með því að leiða hann um götur borgarinnar í nokkurs konar píslargöngu og birta af honum myndband þar sem hann játaði að hafa framið morðin. Mánuði síðar tók David-West játningu sína til baka.

Lögmaður hans tilkynnti AFP-fréttaveitunni að dómnum yrði áfrýjað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert