Hafna því að önnur bylgja hafi risið

00:00
00:00

Aldrei hafa jafn mörg smit kór­ónu­veiru greinst í Rússlandi og í dag en íbú­ar Moskvu virðast marg­ir hverj­ir ekki kippa sér upp við það. Áber­andi er að fólk fari ekki eft­ir sótt­varn­a­regl­um. Rúss­nesk­ir stjórn­mála­menn hafa vísað því á bug að önn­ur bylgja far­ald­urs­ins sé haf­in í Rússlandi og telja ekki þörf á harðari tak­mörk­un­um. 

Rúss­ar til­kynntu fyrsta bólu­efnið gegn veirunni í ág­úst og boðuðu rúss­nesk stjórn­völd bólu­setn­ing­ar kenn­ara og lækna í sept­em­ber­mánuði. Þá hef­ur Vla­dimír Pútín for­seti Rúss­lands til­kynnt að 50 manns úr hans innsta hring hafi verið bólu­sett­ir. Bólu­efnið fór ekki í gegn um viðeig­andi próf­un­ar­ferli en þrátt fyr­ir það greindi Wall Street Journal frá því í lok sept­em­ber að nokkr­ar þjóðir hefðu und­ir­ritað sam­komu­lag við Rússa um skammta af bólu­efn­inu. 

Veit­ingastaðir og bar­ir í Moskvu voru full­ir af fólki og marg­ir íbú­ar hunsuðu regl­ur um grímu­notk­un á sama tíma og smit­töl­ur hækkuðu í sept­em­ber­mánuði. Hert­ar aðgerðir voru ekki kynnt­ar þrátt fyr­ir auk­inn smit­fjölda. 

Rúss­ar eru þó sann­ar­lega ekki eina þjóðin sem glím­ir við fjölg­un smita en evr­ópsk­um þjóðarleiðtog­um hef­ur víða ekki gengið að koma bönd­um á nýja bylgju far­ald­urs­ins. Það geng­ur meira að segja illa í Þýskalandi en Þjóðverj­um var hrósað fyr­ir sér­stak­lega snör viðbrögð við far­aldr­in­um í vor. Nú hækka smit­töl­ur þar eins og víða ann­ars staðar. 

12.126 til­felli á ein­um degi

Stjórn­mála­menn í Rússlandi hafa vísað því á bug að önn­ur bylgja far­ald­urs­ins sé ris­in í land­inu en ein­ung­is Banda­rík­in, Bras­il­ía og Ind­land hafa skráð fleiri til­felli Covid-19 en Rúss­ar. 

12.126 smit voru skráð í Rússlandi í dag og er um að ræða nýtt smit­met. Síðasta metið var sett í maí­mánuði og voru smit­in þá nokk­ur hundruð færri. 

Í upp­hafi heims­far­ald­urs komu Rúss­ar á ein­um hörðustu aðgerðum í heimi til að sporna við út­breiðslu far­ald­urs­ins en flest­um höft­um var aflétt í júní­mánuði. Emb­ætt­is­menn í Moskvu hafa ein­ung­is gripið til mjög vægra aðgerða til að hefta út­breiðslu far­ald­urs­ins.

Fyrr í þess­ari viku varaði eft­ir­lits­stofn­un­in Rospotrebna­dzor, sem stýr­ir helstu viðbrögðum við út­breiðslunni, við því að gripið yrði til nýrra ráðstaf­ana ef nú­ver­andi regl­um yrði ekki fylgt. Þá sögðu stjórn­völd í Rússlandi að ef ástandið héldi áfram að versna kallaði það á ein­hverj­ar aðgerðir eða ákv­arðanir, án þess að til­greina frek­ar um hvað ræddi.

Íbúar í Moskvu klæddir andlitsgrímum í lest.
Íbúar í Moskvu klædd­ir and­lits­grím­um í lest. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert