Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tilkynnti í dag að mest smituðu svæði landsins fengju 10 daga frest til að takast á við vaxandi nýgengi smita, ellegar yrði gripið til strangari aðgerða.
„Við skynjum það öll að stórborgirnar og þéttbýlið eru nú sá vettvangur þar sem við þurfum að sjá hvort okkur takist að halda veirufaraldrinum í skefjum, eins og við höfum gert í Þýskalandi í marga mánuði, eða hvort við missum stjórnina,“ sagði Merkel. „Næstu dagar og vikur munu ráða því hvernig Þýskaland kemst í gegnum faraldurinn í vetur.“
Höfuðborgin Berlín og Frankfurt eru meðal svæða sem hafa verið sett á lista yfir hááhættusvæði í Þýskalandi eftir að nýgengi smita varð meira en 50 á hverja 100.000 íbúa í vikunni, samkvæmt AFP-fréttaveitunni. Meðal hertra aðgerða sem lagðar eru til eru víðtækari grímuskylda, jafnvel utandyra í margmenni, og styttur afgreiðslutími veitingahúsa.