Örvæntingarfull skilaboð: „Ég get ekki andað“

Víetnömsku flóttamennirnir fundust látnir í gámnum.
Víetnömsku flóttamennirnir fundust látnir í gámnum. AFP

„Mér þykir það leitt. Ég get ekki hugsað um þig fram­ar. Ég get ekki andað.“ Bresk­ir kviðdóm­end­ur fengu í dag að heyra ör­vænt­ing­ar­full og sorg­leg síma­skila­boð sem hóp­ur Víet­nama sendi áður en hann kafnaði í lokuðum gáma­flutn­inga­bíl. 

Sak­sókn­ari við rétt­ar­höld yfir fjór­um mönn­um sagði að víet­nömsku flótta­menn­irn­ir 39, þar á meðal tveir fimmtán ára dreng­ir, hefðu hugs­an­lega dáið vegna „gráðugra“ smygl­ara sem reyndu að troða fólki inn í einn gám í stað tveggja eft­ir að yf­ir­völd höfðu stöðvað fyrri gám þeirra.

Lík flótta­mann­anna fund­ust í gámi flutn­inga­bíls í Essex í Suðaust­ur-Englandi í októ­ber í fyrra eft­ir að gám­ur­inn hafði verið flutt­ur með skipi frá Zeebrug­ge í Belg­íu. Fólkið var lokað inni í myrkr­inu í að minnsta kosti tólf klukku­stund­ir í óbæri­leg­um hita.

Rétt­ar­meina­fræðing­ur reiknaði út að það hefði tekið um níu klukku­stund­ir fyr­ir loftið að verða eitrað í gámn­um. Fólkið hefði byrjaði að deyja skömmu síðar.

Sak­sókn­ar­ar hafa greint frá því að fólkið hafi ekki getað náð síma­sam­bandi inni í gámn­um en búið var að slökkva á kæli­kerf­inu þar inni.

Um fimm klukku­stund­um áður en flutn­inga­bíll­inn komst til bæj­ar­ins Pur­f­leet í Essex til að sækja gám­inn reyndi hinn tví­tugi Nguyen Dinh Luong að hringja í víet­nömsku neyðarlín­una, 133, án ár­ang­urs. Sjö mín­út­um síðar las Nguyen Tho Tuan, 25 ára, inn skila­boð á sím­ann sinn fyr­ir eig­in­konu sína og börn: „Þetta er Tuan. Mér þykir það leitt. Ég get ekki hugsað um þig fram­ar. Fyr­ir­gefðu. Fyr­ir­gefðu. Ég get ekki andað,“ sagði hann. „Mig lang­ar að kom­ast aft­ur til fjöl­skyld­unn­ar minn­ar. Eigið þið gott líf.“

Í öðrum mynd­bands­skila­boðum heyrðist önn­ur rödd segja: „Ég get ekki andað. Ég get ekki andað. Fyr­ir­gefðu. Ég verð að fara núna.“ Í öðrum skila­boðum sagði sama rödd: „Þetta er allt mér að kenna.“

Sak­sókn­ar­inn Bill Emlyn Jo­nes sagði að yf­ir­maður vöru­flutn­inga­fyr­ir­tæk­is­ins, Ronan Hug­hes, hefði, í gegn­um snapchat­skila­boð, sagt bíl­stjór­an­um Maurice Robin­son að „hleypa fljótt inn lofti til þeirra en ekki hleypa þeim út“ þegar hann sótti gám­inn í Pur­f­leet.

Í ör­ygg­is­mynda­vél sést Robin­son leggja bíln­um eft­ir að hafa yf­ir­gefið höfn­ina í Pur­f­leet, ganga baka til og opna dyrn­ar lít­il­lega. Hann tek­ur síðan skref til baka og stend­ur í 90 sek­únd­ur áður en hann geng­ur ró­lega í átt að bíl­stjóra­sæti sínu, að því er kom fram í rétt­ar­saln­um í dag. Fyrst hringdi hann í Hug­hes og síðan í bresku neyðarlín­una, 999, og sagði frá látna fólk­inu.

Játuðu á sig mann­dráp

Robin­son og Hug­hes hafa báðir játað á sig mann­dráp og að hafa tekið þátt í að smygla fólk­inu. Eamonn Harri­son, 23 ára, sem er sagður hafa flutt gám­inn með vöru­bíl til Zeebrug­ge, og Georg­he Nica, 43 ára, neita báðir aðild að mann­drápi í 39 liðum.

Harri­son, Valet­in Calota og Christoph­er Kenn­e­dy segj­ast jafn­framt ekki hafa tekið þátt í að smygla fólk­inu en Nica hef­ur játað sök í þeim ákæru­lið.

Rétt­ar­höld­in hóf­ust á miðviku­dag­inn og er bú­ist við að þau standi yfir í allt að sex vik­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert