„Mér þykir það leitt. Ég get ekki hugsað um þig framar. Ég get ekki andað.“ Breskir kviðdómendur fengu í dag að heyra örvæntingarfull og sorgleg símaskilaboð sem hópur Víetnama sendi áður en hann kafnaði í lokuðum gámaflutningabíl.
Saksóknari við réttarhöld yfir fjórum mönnum sagði að víetnömsku flóttamennirnir 39, þar á meðal tveir fimmtán ára drengir, hefðu hugsanlega dáið vegna „gráðugra“ smyglara sem reyndu að troða fólki inn í einn gám í stað tveggja eftir að yfirvöld höfðu stöðvað fyrri gám þeirra.
Lík flóttamannanna fundust í gámi flutningabíls í Essex í Suðaustur-Englandi í október í fyrra eftir að gámurinn hafði verið fluttur með skipi frá Zeebrugge í Belgíu. Fólkið var lokað inni í myrkrinu í að minnsta kosti tólf klukkustundir í óbærilegum hita.
Essex lorry deaths: Vietnamese migrants called relatives while suffocating, court hears https://t.co/ArNXRlkCZ3
— Guardian news (@guardiannews) October 9, 2020
Réttarmeinafræðingur reiknaði út að það hefði tekið um níu klukkustundir fyrir loftið að verða eitrað í gámnum. Fólkið hefði byrjaði að deyja skömmu síðar.
Saksóknarar hafa greint frá því að fólkið hafi ekki getað náð símasambandi inni í gámnum en búið var að slökkva á kælikerfinu þar inni.
Um fimm klukkustundum áður en flutningabíllinn komst til bæjarins Purfleet í Essex til að sækja gáminn reyndi hinn tvítugi Nguyen Dinh Luong að hringja í víetnömsku neyðarlínuna, 133, án árangurs. Sjö mínútum síðar las Nguyen Tho Tuan, 25 ára, inn skilaboð á símann sinn fyrir eiginkonu sína og börn: „Þetta er Tuan. Mér þykir það leitt. Ég get ekki hugsað um þig framar. Fyrirgefðu. Fyrirgefðu. Ég get ekki andað,“ sagði hann. „Mig langar að komast aftur til fjölskyldunnar minnar. Eigið þið gott líf.“
Dying Vietnamese migrants recorded harrowing final messages on their phones before being found dead in lorry in Essex https://t.co/X2rn5wbnM2
— Daily Mail Online (@MailOnline) October 9, 2020
Í öðrum myndbandsskilaboðum heyrðist önnur rödd segja: „Ég get ekki andað. Ég get ekki andað. Fyrirgefðu. Ég verð að fara núna.“ Í öðrum skilaboðum sagði sama rödd: „Þetta er allt mér að kenna.“
Saksóknarinn Bill Emlyn Jones sagði að yfirmaður vöruflutningafyrirtækisins, Ronan Hughes, hefði, í gegnum snapchatskilaboð, sagt bílstjóranum Maurice Robinson að „hleypa fljótt inn lofti til þeirra en ekki hleypa þeim út“ þegar hann sótti gáminn í Purfleet.
Í öryggismyndavél sést Robinson leggja bílnum eftir að hafa yfirgefið höfnina í Purfleet, ganga baka til og opna dyrnar lítillega. Hann tekur síðan skref til baka og stendur í 90 sekúndur áður en hann gengur rólega í átt að bílstjórasæti sínu, að því er kom fram í réttarsalnum í dag. Fyrst hringdi hann í Hughes og síðan í bresku neyðarlínuna, 999, og sagði frá látna fólkinu.
Robinson og Hughes hafa báðir játað á sig manndráp og að hafa tekið þátt í að smygla fólkinu. Eamonn Harrison, 23 ára, sem er sagður hafa flutt gáminn með vörubíl til Zeebrugge, og Georghe Nica, 43 ára, neita báðir aðild að manndrápi í 39 liðum.
Harrison, Valetin Calota og Christopher Kennedy segjast jafnframt ekki hafa tekið þátt í að smygla fólkinu en Nica hefur játað sök í þeim ákærulið.
Réttarhöldin hófust á miðvikudaginn og er búist við að þau standi yfir í allt að sex vikur.