Rafskútur verði bannaðar í Kaupmannahöfn

Rafskútur hafa notið mikilla vinsælda hér á landi.
Rafskútur hafa notið mikilla vinsælda hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yf­ir­völd í Kaup­manna­höfn vilja banna raf­skútu­leig­ur í miðbæ borg­ar­inn­ar vegna vanda­mála sem þeim fylgja.

„Það mun hvorki vera hægt að leigja né leggja raf­skút­um í stærst­um hluta Kaup­manna­hafn­ar frá 1. janú­ar 2021,“ seg­ir í tölvu­pósti sem heil­brigðis- og tækni­svið borg­ar­inn­ar sendi AFP-frétta­veit­unni.

Með þess­um aðgerðum eru skút­urn­ar í raun gerðar út­læg­ar úr miðbæ borg­ar­inn­ar og nær­liggj­andi hverf­um. „Við höf­um því miður lent í al­var­leg­um vand­ræðum með þess­ar raf­skút­ur – eldri borg­ar­ar eiga í mikl­um erfiðleik­um með að kom­ast á milli staða þar sem þær eru skild­ar eft­ir liggj­andi út um allt,“ sagði borg­ar­stjórn­ar­full­trú­inn Rune Dybvad.

Borg­ar­stjórn verður að samþykkja bannið svo það taki gildi, en til­lag­an nýt­ur mik­ils stuðnings inn­an borg­ar­inn­ar.  Dæmi eru um það hér á landi að raf­skút­ur séu þannig skild­ar eft­ir að þær loki gang­stétt­um og hindri þannig al­manna­leið, en frá­gang­ur leigu­skút­anna hef­ur verið um­deilt mál frá því þær komu fyrst á markað.

Raf­skút­ur hafa þó ekki náð jafn­mik­illi úbreiðslu í Kaup­manna­höfn og í mörg­um öðrum evr­ópsk­um höfuðborg­um en senni­lega skýrist það af því hve hjól­reiðar eru út­breidd­ar í borg­inni.


mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert