Yfirvöld í Kaupmannahöfn vilja banna rafskútuleigur í miðbæ borgarinnar vegna vandamála sem þeim fylgja.
„Það mun hvorki vera hægt að leigja né leggja rafskútum í stærstum hluta Kaupmannahafnar frá 1. janúar 2021,“ segir í tölvupósti sem heilbrigðis- og tæknisvið borgarinnar sendi AFP-fréttaveitunni.
Með þessum aðgerðum eru skúturnar í raun gerðar útlægar úr miðbæ borgarinnar og nærliggjandi hverfum. „Við höfum því miður lent í alvarlegum vandræðum með þessar rafskútur – eldri borgarar eiga í miklum erfiðleikum með að komast á milli staða þar sem þær eru skildar eftir liggjandi út um allt,“ sagði borgarstjórnarfulltrúinn Rune Dybvad.
Borgarstjórn verður að samþykkja bannið svo það taki gildi, en tillagan nýtur mikils stuðnings innan borgarinnar. Dæmi eru um það hér á landi að rafskútur séu þannig skildar eftir að þær loki gangstéttum og hindri þannig almannaleið, en frágangur leiguskútanna hefur verið umdeilt mál frá því þær komu fyrst á markað.
Rafskútur hafa þó ekki náð jafnmikilli úbreiðslu í Kaupmannahöfn og í mörgum öðrum evrópskum höfuðborgum en sennilega skýrist það af því hve hjólreiðar eru útbreiddar í borginni.
Hi @Wind_mobility you have to ask your employees in Reykjavík to stop placeing your scooters on the sidewalks! This can cause major problems for people using wheelchairs and other mobility issues, people with sight imperments, children, people with trams and the list goes on. pic.twitter.com/8nXsnScpv7
— Theodór Ingi (@TeddiLeBig) September 13, 2020